Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

Ég sá þessa uppskrift í morgunverðarblaðinu frá Fine Cooking um daginn og hugsaði með mér að hún væri kjörin til að vígja nýju matvinnsluvélina mína með. Hún hefur staðið glansandi ný og fín á eldhúsborðinu síðustu vikurnar og ég verð hamingjusöm við það eitt að hugsa til hennar en það var þó kominn tími til að byrja að nota vélina.

Ef ég á að vera hreinskilin þá var það þrennt sem heillaði mig við þessa uppskrift: súkkulaðið, hneturnar og tækifærið til að nota matvinnsluvélina. Það er þó í raun engin þörf á matvinnsluvél til að baka þetta brauð því það er vel hægt að nota bara venjulegt rifjárn. Kúrbíturinn heillaði mig ekkert og ef uppskriftin hefði ekki verið úr Fine Cooking blaði hefði ég eflaust látið hann fæla mig frá. Mikið var ég fegin að ég gerði það ekki því brauðið var algjört æði. Það hélst mjúkt lengi og ég held að það sé kúrbítnum að þakka.

Þetta brauð myndi slá í gegn á brönsborði og þá er tilvalið að baka það deginum áður.

Kúrbítsbrauð með valhnetum og súkkulaði

 • 110 gr smjör
 • 2 bollar og 2 msk hveiti
 • 1 stór kúrbítur (ca 330 gr)
 • 3/4 bolli + 2 msk sykur
 • 1/3 bolli sterkt uppáhelt kaffi, kalt eða við stofuhita
 • 1/3 bolli jógúrt
 • 2 stór egg
 • 1/3 bolli fínhakkað suðusúkkulaði
 • 1/2 bolli hakkaðar valhnétur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk salt
 • 1/2 tsk kanil

Hitið ofninn í 190°. Smyrjið brauðform og dustið með hveiti.

Skerið endana af kúrbítnum frá og rífið kúrbítinn með grófa rifjárninu á matvinnsluvél (eða venjulegu rifjárni). Hendið frá því sem verður eftir á rifjárninu. Setjið rifinn kúrbítinn í sigti og stráið 1 msk af sykri yfir og hristið vel. Stráið annari msk af sykri yfir og hristið aftur. Látið standa í sigtinu í 20 mínútur.

Bræðið smjörið í potti við miðlungs hita. Hellið smjörinu í skál og látið kólna aðeins. Hrærið 3/4 bolla af sykri, kaffi, jógúrt og eggjum saman við smjörið.

Setjið hveiti, súkkulaði, valhnetur, lyftiduft, matarsóda, salt og kanil í skál og blandið saman.

Kreistið safann úr kúrbítnum og blandið kúrbítnum saman við smjörblönduna. Hellið blöndunni yfir þurrefnin og hrærið öllu saman með trésleif. Setjið deigið í brauðform og bakið í ca klukkustund, eða þar til bökunarprjóni stungið í mitt brauðið kemur hreinn upp.