Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguVeðurblíðan virðist leika við landsbyggðina á meðan við gleðjumst yfir einum og einum þurrum degi hér í höfuðborginni. Ég eldaði kjötsúpu og fór í Ikea til að fylla á kertabyrgðirnar í síðustu viku. Ég meina, hversu lítið sumarlegt er það? Nú fer þetta vonandi að lagast, spáin lítur ágætlega út fyrir helgina og fínasta grillveður í kortunum!

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguÞetta kjúklingasalat er einn af mínum uppáhalds grillréttum þetta sumarið. Helst grilla ég kjúklinginn en það má vel steikja hann á pönnu ef því er að skipta. Það skemmir ekki fyrir hvað salatið er fallegt á borði og gaman að bera það fram, en best af öllu er þó hvað það er gott. Svo einfalt, ferskt og dásamlega gott!

Kannski eitthvað til að prófa um helgina?

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

  • 500 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
  • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
  • 70 g furuhnetur
  • 1 msk tamarisósa
  • spínat
  • 1 rauð paprika, skorin í strimla
  • 1 gul paprika, skorin í strimla
  • ½ rauðlaukur, skorin í fína strimla
  • kokteiltómatar, skornir í tvennt
  • avokadó, skorið í sneiðar
  • jarðaber, skorin í tvennt
  • gráðostur (má sleppa)

BBQ-dressing:

  • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
  • 1 dl matreiðslurjómi

Kjúklingalundum og BBQ-sósu er blandað saman í skál og kjúklingurinn látinn marinerast í 30 mínútur. Að því loknu er hann grillaður þar til eldaður í gegn.

Furuhnetur eru þurrristaðar á pönnu við miðlungsháan hita þar til þær eru komnar með gylltan lit. Þá er tamarisósu hellt yfir og steikt áfram í 30 sekúndur (eftir að tamarisósan er komin á pönnuna er hrært stöðugt í hnetunum). Hneturnar eru þá teknar af pönnunni og lagðar til hliðar.

BBQ-dressing: BBQ-sósu og matreiðslurjóma er blandað saman í potti og hitað að suðu. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur.

Samsetning: Spínat, paprikur, rauðlaukur, kokteiltómatar og avokadó er blandað saman og sett í stóra skál eða á fat. Grillaðar kjúklingalundir eru lagðar yfir, þar næst er gráðostur mulinn yfir og að lokum er ristuðum furuhnetum stráð yfir salatið. Salatið er skreytt með jarðaberjum og borið fram með BBQ-dressingunni.

Satay kjúklingasalat

Það er svo margt sem mig dreymir um að eignast fyrir heimilið. Listinn breytist með tíð og tíma en sumir hlutir eru fastir á honum. Það eru hlutirnir sem ég ætti að kaupa. Ég veit samt innst inni að ég á ekki eftir að gera það því mér þykja þeir eru flestir svo asnalega dýrir. En að dreyma kostar ekkert og ef ég safna þeim hér saman þá fegra þeir síðuna mína og þá á ég þá svolítið.

dagg

Vasinn Dagg frá Svenskt tenn þykir mér fallegasti vasi sem ég hef á ævi minni séð. Hann kostar formúgu og ég veit ekki til þess að hann fáist annars staðar en í Svíþjóð. Ég veit að ég á aldrei eftir að eignast hann því ég myndi seint kaupa mér blómavasa á 50 þúsund og hvað þá nenna að ferja hann hingað heim. En ó, hvað hann er samt fallegur.

musselmaletcollage

Musselmalet matarstellið frá Royal Copenhagen. Svo dásamlega fallegt og klassískt og dýrt.

Satay kjúklingasalat

Kubus kertastjakinn hefur staðið lengi á óskalistanum en valkvíðinn stoppar mig. Svartur eða hvítur? Ég get ekki ákveðið það.

vipp

Vipp baðvörurnar færu vel á baðherberginu hjá mér. Stundum ákveð ég að láta vaða og kaupa þær en átta mig síðan á því að það er kannski hálf galið að kaupa klósettbursta á 29 þúsund. Svo ég hætti við.

Day lampi

Curves lampinn frá DAY home. Ómæ hvað ég elska hann. Ég vona að hann eigi eftir að standa á stofuskenknum hjá mér einhvern daginn.

Bestlite-BL3-Black-300x300

Bestlite gólflampinn má líka flytja inn. Ég ætla þá alltaf að sitja við hann og prjóna eða lesa. Lífið verður örlítið fallegra við það.

louse poulsen

Og á meðan ég er að láta mig dreyma um ljós þá má Collage ljósið frá Louise Poulsen alveg hanga yfir borðstofuborðinu mínu. Ég heyrði einhvern tímann að það að horfa á það eigi að vera eins og að liggja á skógarbotni og horfa í gegnum tréin upp í himininn. Mér fannst það rómantískt og ljósið verða enn fallegra fyrir vikið.

GlobalKnives

Það sem hefur staðið lengi til að eignast og ég skil ekki af hverju ég hef ekki látið verða af eru fleiri Global-hnífar. Ég á einn og nota hann í allt sem ég geri í eldhúsinu. Á innkaupalistanum standa brauðhnífurinn og grænmetishnífurinn.

Satay kjúklingasalat

Nú finn ég að ég er að komast á flug og ætla því að láta staðar numið áður en þetta endar í vitleysu. Það sem er hins vegar laust við alla vitleysu er kjúklingasalatið sem ég gerði um síðustu helgi. Það er í algjöru uppáhaldi hjá krökkunum og fyrir ári síðan boðuðu þau til fjölskyldufundar þar sem þau óskuðu eftir að við værum alltaf með það á laugardagskvöldum. Ég lét það eftir þeim í margar vikur því það virðist sama hvað við borðum þetta oft, við fáum ekki leið á því. Mig grunar að margir eigi uppskriftina en ég ætla samt að birta hana sem hugmynd að góðri byrjun á helginni. Þetta er alltaf jafn gott og svo dásamlega einfalt.

Satay kjúklingasalat

Satay kjúklingasalat með kúskús

  • kjúklingabringur
  • Satay sósa ( mér þykir frá Thai choice langbest)
  • kúskús (án bragðefna eða með sólþurrkuðm tómötum)
  • spínat (eða annað gott salat)
  • rauðlaukur
  • rauð paprika
  • kirsuberjatómatar
  • avokadó
  • salthnetur
  • fetaostur

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið á pönnu. Hellið satay sósunni yfir og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn.

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum á pakka. Mér þykir gott að setja hálfan grænmetis- eða kjúklingatening í vatnið.

Skerið papriku og rauðlauk í strimla, kirsuberjatómata í tvennt og avokadó í sneiðar.

Setjið spínat í botninn á fati. Dreifið úr kúskúsinu yfir og setjið kjúklinginn yfir kúskúsið ásamt hluta af sósunni (geymið restina af sósunni). Stráið papriku, rauðlauk, kirsuberjatómötum, avokadó og fetaosti ásamt smá af olíunni yfir. Dreifið að lokum salthnetum yfir. Setjið það sem var eftir af satay sósunni í skál og berið fram með.