Við erum öll hrifin af þessari aspassúpu og ég elda hana reglulega. Ég eldaði hana um daginn og tók myndir en týndi síðan miðanum sem ég hafði skrifað uppskriftina á. Eftir að ég byrjaði að blogga er ég farin að vera með blað og penna við eldavélina og skrifa niður það sem fer ofan í pottana. Síðan fara miðarnir stundum á flakk og eftir sit ég með myndir en enga uppskrift. Í kvöld ákvað ég því að elda aspassúpuna aftur og skrifa uppskriftina strax inn, áður en ég týni miðanum.
Mér þykir mjög gaman að elda súpur og hef yfirleitt súpu einu sinni í viku í matinn. Það er eitthvað notalegt við að elda súpu, að smakka þær til og bragðbæta. Ég á alltaf aspasdósir í skápnum og oftast rjómatár í ískápnum. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég bara mjólk. Ég er því ekki í neinum vandræðum með að gera aspassúpu þegar okkur langar í hana. Það er svo einfalt að gera súpur og kvöldmaturinn er komin á borðið á svipstundu. Best þykir okkur að hafa baguette með (ég kaupi þau frosin frá Délifrance, mjög þægilegt) og dýfa því í súpuna.
Aspassúpa
- 2 msk smjör
- 4 msk hveiti
- 2 litlar eða 1 stór dós grænn aspas (um 450 g.)
- 5 dl vatn
- 2 dl rjómi
- 1 kjúklingateningur
- 1 grænmetisteningur
- salt
- hvítur pipar
Bræðið smjörið í potti og hrærið hveitinu saman við. Hrærið safanum af aspasnum saman við í smáum skömmtum og hrærið vel á milli. Bætið vatninu og rjómanum saman við smátt og smátt og hrærið alltaf vel á milli. Setjið aspasinn og teningana út í og leyfið að sjóða um stund. Smakkið til með hvítum pipar og salti.