Fljótlegar og ljúffengar smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Það hefur verið í nógu að snúast undanfarna daga og því ekki gefist mikill tími til að dunda sér í eldhúsinu. Á morgun verður 10. bekkur með kökusölu í skólanum og Malín á að koma með tvær kökur. Ég sé því núna fram á notalega kvöldstund í eldhúsinu með jólalögin í bakgrunninum og bökunarlykt í húsinu.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur

Á sunnudaginn var útstáelsi á okkur þar sem við fórum í afmæli, á bókamessuna og þaðan í Garðheima að endurnýja útiseríuna. Við komum seint um síðir heim og reiddum fram ljúffengar pizzur á svipstundu. Mér þykir gott að eiga smjördeig í frystinum og þarna kom það sér mjög vel. Ég flatti nokkrar plötur út, smurði tomato & garlic stir through (úr glerkrukku frá Sacla) yfir og toppaði ýmist með marineruðum paprikubitum (líka úr glerkrukku frá Sacla) eða ferksrifum parmesan. Þegar pizzurnar komu úr ofninum þá settum við hráskinku, ruccola og ferskrifinn parmesan yfir. Svakalega fljótlegt og gott!

Smjördeigspizzur

Það er hægt að leika sér endalaust með hráefnin og útfærsluna en svona voru pizzurnar hjá okkur.

Smjördeigspizzur

Smjördeigspizzur (hugmyndin kemur héðan)

  • smjördeig
  • Stir through með tómat og hvítlauk
  • marineraðir paprikubitar í kryddolíu
  • ferskur parmesan
  • hráskinka
  • ruccola

Hitið ofninn í 190°.

Afþýðið smjördeigið (ef þið eruð með frosið) og fletjið út. Smyrjið stir through yfir og stráið parmesan osti eða marineruðum paprikubitum yfir. Brjótið upp á kantana og penslið þá með upphrærðu eggi. Bakið í 10 mínútur. Takið úr ofninum og setjið hráskinku og ruccola salat yfir og toppið með ferskrifnum parmesan.