Um síðustu helgi hittumst við SSSskutlurnar hjá mér, en eins og ég hef áður sagt frá þá kynntist ég þeim í gegnum fótboltann hjá Gunnari. Synir okkar æfa saman hjá Breiðablik og við búum hér í sama hverfi í Kópavoginum. Eftir að við byrjuðum að skiptast á að skutla strákunum á æfingar festist þetta SSSskutlunafn við okkur (öll S-in koma til vegna þess að við heitum Sigrún, Sunna og Svava).
Það er aldrei dauð stund þegar við hittumst og kvöld með þeim er ávísun á hlátursköst og stuð. Ég bauð upp á kjúklingasalat og var síðan búin að gera tvo eftirrétti en í öllu fjörinu gleymdi ég að bera annan þeirra fram!
Fyrir matinn var ég með fordrykk sem ég má til með að gefa uppskrift af fyrir helgina. Hann ætti að koma öllum í helgargírinn!
Cava Sangria
- 1 flaska freyðivín
- 1 dl af líkjörnum 43
- 2 dl appelsínusafi
- klaki
- appelsínusneiðar
Blandið öllu saman í könnu og njótið!