Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Ég tók forskot á helgarbaksturinn í gær og bakaði þessa appelsínuformköku með súkkulaðibitum til að eiga með kaffinu. Uppskriftina sá ég hjá Joy the Baker og hugsaði strax með mér að Malín ætti eftir að verða hrifin af henni. Hún elskar appelsínur og súkkulaði og velur sér oftast appelsínusúkkulaði sem laugardagsnammi. Það lék því ekki nokkur vafi á því að þessi kaka ætti eftir að skora hátt hjá henni.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Það er helst frá því að segja að það mun engin fá sneið af kökunni með kaffibollanum þessa helgina því kakan er búin. Hún kláraðist strax í gær og skyldi engan sem smakkaði hana furða. Hún var dásamlega góð og við erum ákveðin í að baka hana fljótlega aftur.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

Eins og með aðra sítrusávexti þá þykir mér svo mikilvægt þegar verið er að rífa hýðið af að taka bara þunnt lag. Haldið á ávextinum í annarri hendi og rennið mjúklega með rifjárninu yfir hann með hinni hendinni. Þið finnið um leið hvað það kemur góð lykt við þetta, allt önnur en þegar hvíta skorpan kemur með. Í þessa uppskrift notaði ég hýði af tveimur appelsínum.

Appelsínuformkaka með súkkulaðibitum

  • 2 bollar hveiti
  • 1 ½ tsk lyftiduft
  •  ½ tsk salt
  • 1  ½ bolli sykur
  • 2 msk appelsínuhýði (passið að taka bara efsta lagið svo það komi ekki beiskt bragð)
  • 225 g rjómaostur
  • 3/4 bolli smjör við stofuhita
  • 4 stór egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 bolli grófhakkað dökkt súkkulaði

Hitið ofninn í 165°. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti og setjið til hliðar.

Setjið sykur í skál. Rífið appelsínuhýðið (bara efsta lagið) og blandið því saman við sykurinn. Hrærið vel saman svo sykurinn fái bragð af appelsínuhýðinu. Setjið til hliðar.

Hrærið saman smjör og rjómaost. Skrapið reglulega niður með hliðum skálarinnar og passið að allt blandist vel. Bætið appelsínusykrinum saman við og hrærið á miðlungshraða í um 3 mínútur. Bætið eggjum saman við, einu í einu, og hrærið í 1 mínútu á milli. Hrærið vanilludropum saman við.

Bætið öllum þurrefnunum saman við og hrærið saman á hægum hraða þar til allt hefur blandast vel. Hrærið súkkulaðibitunum varlega saman við með sleif.

Setjið deigið í smurt formkökuform (mér þykir best að nota PAM-sprey). Bakið í 50-65 mínútur, eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp.  (Joy bendir á að sumir lesenda hennar hafi þurft að baka kökuna í allt að 75 mínútur og bendir þá á að leggja álpappír yfir hana í lokin til að kakan verði ekki of dökk. Ég lenti þó ekki í vandræðum með þetta heldur dugði mér að baka hana í 65 mínútur með engum álpappír).