Ég er loksins komin í frí og ætla að eyða næstu vikum í afslöppun hér á Balí. Við komum hingað í hádeginu á föstudaginn og ég hef nánast verið sofandi síðan við lögðum af stað frá Keflavík. Ég svaf öll flugin, var sofnuð kl. 20 á föstudagskvöldinu og svaf alla nóttina án þess að rumska. Eftir morgunverðinn fórum við niður á strönd (hótelið okkar er á ströndinni) og þar sofnaði ég aftur. Seinni partinn settumst við í setustofuna við móttökuna og það var svo notalegt að sitja þar í sófanum í skugganum að ég sofnaði aftur. Nú er ég hins vegar að súpa seyðið af öllum þessum svefni og sit hér glaðvakandi við tölvuna kl. 3 um nóttu, með svalahurðina opna upp á gátt og hlusta á fuglasönginn sem berst inn til okkar. Á milli þess sem ég hef sofið hef ég náð að klára tvær bækur síðan ég kom hingað og hlakka til að byrja á þeirri þriðju þegar sólin kemur upp.
Við ætlum að eyða fyrstu nóttunum hér í Nusa Dua en förum síðan á þriðjudaginn til Ubud. Hér er sláandi fallegt, herbergið okkar er með einu besta rúmi sem við höfum sofið í og maturinn er svo góður að það nær engri átt. Morgunverðarhlaðborðið á hótelinu okkar er svakalegt, með öllu því sem hugurinn girnist. Ég hef aldrei séð annað eins. Nýbökuð brauð, álegg, eggjahrærur gerðar eftir óskum, beikon, pylsur, núðlur, steikt kínversk hrísgrjón, núðlusúpur, sushi, pönnukökur með súkkulaðisósu, belgískar vöfflur með sýrópi og berjum, ávaxtabar… úrvalið er endalaust! Ég get varla beðið eftir að klukkan slái sjö og mun eflaust hanga á húninum þegar þeir opna.
Í gærkvöldi borðuðum við á veitingastað hér í Nusa Dua sem heitir Kayiputi. Þar fengum við rækjuforrétt, æðislega nautasteik með grænmeti og kartöflumús með truffluolíu í aðalrétt og súkkulaðiköku sem var hjúpuð með súkkulaðimús og toppuð með súkkulaðiís í eftirrétt. Hrein dásemd! Ég setti myndir á Insta stories og ætla að reyna að vera dugleg að uppfæra þar á þessu ferðalagi mínu.
Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek tölvuna með mér í frí og hef hugsað mér að blogga á meðan ég er hérna. Ég er nefnilega með svo mikið af uppskriftum sem eiga eftir að rata hingað inn að mér fannst upplagt að nýta tækifærið á meðan ég er hér að dunda mér við bloggið. Fyrsta uppskriftin héðan er svo sannarlega ekki framandi heldur ljúffeng rababarabaka sem passar vel núna þegar allir garðar eru að springa úr rababörum. Ég bauð upp á bökuna kvöldið áður en við lögðum af stað hingað út, í tilefni af afmæli mömmu. Með bökunni bar ég fram heimagerða vanillusósu (skal setja uppskriftina inn fljótlega) en vanilluís eða rjómi fara líka vel með henni.
Rabbabarabaka með vanillu
- 3 rababarar (ca 30 cm að lengd)
- 1 dl sykur
- 2 tsk vanillusykur
- 1 tsk kartöflumjöl
Deig
- 2 dl hveiti
- 1 dl haframjöl
- 4 tsk sykur
- 150 g smjör
- 1 tsk vanillusykur
- sýróp (ég notaði ljóst sýróp sem kemur í brúsum, mjög þægilegt að sprauta beint úr flöskunni yfir bökuna)
Hitið ofninn í 200°. Skerið rababarann í ca 1 cm stóra bita. Smyrjið eldfast mót með smjöri og setjið rababarann í botninn á mótinu. Blandið sykri, vanillusykri og kartöflumjöli saman og stráið yfir rababarann.
Degið: Setjið hveiti, haframjöl, sykur, vanillusykur og smjör í skál og vinni saman þar til það myndast gróf mylsna. Dreifið henni yfir rababarana og endið á að láta sýróp í mjórri bunu yfir bökuna (það á ekki að þekja hana alla). Bakið í um 25 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið gylltan lit og rababarinn er orðinn mjúkur.