Ég vil meina að þessi súkkulaðibrownieskaka sé í raun jólaleg kaka, að minnsta kosti jólaleg súkkulaðikaka. Ástæðan fyrir því að mér þykir þetta er að hún er með bismark brjóstsykri og hvítu súkkulaði, sem mér þykir vera svo jólalegt. Hvað sem öðrum finnst þá get ég lofað að hún mun fara vel á hvaða jólaborði sem er og með þeyttum rjóma mun enginn geta staðist hana.
Ég bakaði þessa bismarkbrownies með hvítu súkkulaði fyrir saumaklúbbinn í gær og við kolféllum allar fyrir henni. Þar að auki tók 11 ára sjarmör svo djúpt í árina að segja að þetta væri besta kaka sem hann hafði smakkað. Hann hefði ekki getað gefið mér betra hól og nú hefur hann mig alveg í lófa sínum.
Ef þið ætlið bara að baka eina köku fyrir jólin þá skuluð þið velja þessa. Geymið hana í ísskáp og þegar þið berið hana fram skuluð þið skera hana í bita, raða á fallegan disk og sigta flórsykri yfir. Það ætla ég alla vega að gera. Síðan má alls ekki gleyma rjómanum, hann fullkomnar dásemdina.
Uppskriftina fann ég í sænsku matreiðslublaði, Allt om mat. Ég rétt náði að mynda síðustu sneiðarnar sem enduðu klesstar saman í skál. Ekki láta þessa ógirnilegu mynd fæla ykkur frá kökunni því hún á svo mikið meira skilið.
Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði
- 4 egg
- 4 dl sykur
- 200 g smjör
- 200 g suðusúkkulaði
- smá salt
- 2 dl hveiti
- 2 msk kakó
- 1 poki bismarkbrjóstsykur (150 g)
Hvítt súkkulaðideig
- 2 egg
- 2 dl sykur
- 150 g smjör
- 150 g hvítt súkkulaði
- smá salt
- 1 ½ dl hveiti
Hitið ofninn í 175°. Blandið eggi og sykri saman fyrir bæði deigin í sitthvorri skálinni. Passið að þeyta ekki blönduna heldur bara að hræra henni saman. Bræðið smjörin í sitthvorum pottinum og setjið niðurskorið súkkulaðið út í. Hrærið varlega í pottunum og látið súkkulaðið bráðna í smjörinu. Bætið saltinu saman við.Hellið súkkulaðiblöndunum í eggjablöndurnar. Siktið hveiti og kakó saman við dökka deigið og hveiti saman við hvíta súkkulaðideigið. Hrærið í blöndunum þar til þær verða sléttar.
Leggið bökunarpappír í botninn á skúffukökuformi sem er ca 20×30 cm stórt. Fínmyljið helminginn af bismarkbrjóstsykrinum og grófmyljið hinn helminginn og leggið til hliðar.
Setjið helminginn af dökka deiginu í formið og stráið fínmulda bismarkbrjóstsykrinum yfir. Setjið allt hvíta súkkulaðideigið yfir og síðan seinni helminginn af dökka deiginu. Endið á að strá grófmulda bismarkbrjóstsykrinum yfir. Bakið í miðjum ofni í ca. 30 mínútur. Kakan á að vera svolítið blaut í miðjunni. Látið kökuna kólna og geymið hana helst í ísskáp.