Pizzasnúðar

Ég baka oft pizzasnúða og þykir gott að eiga þá í frystinum. Á sumrin kippum við þeim með okkur í lengri bílferðir eða hjólatúra og á veturnar þykir krökkunum gott að geta hitað sér þá eftir skóla eða æfingar.

Ég hef prufað margar uppskriftir að pizzasnúðum en þessi er sú sem stendur upp úr og okkur þykir langbest. Ég leyfi deiginu að hefast lengi og uppsker stóra og mjúka snúða fyrir vikið. Til að snúðarnir verða léttir og góðir finnst mér skipta mestu máli að hnoða deigið lengi (ég nota hnoðaran á Kitchen Aid hrærivélinni og læt hann hnoða í um 5 mínútur), nota eins lítið hveiti og ég kemst upp með og að leyfa deiginu að hefast lengi. Þó að baksturinn taki lengri tíma þá er samt vinnan við þá ósköp fljótleg og mér þykir því lítið mál að henda í snúðana þegar ég er heima.

Ég hef bæði prófað að setja pizzasósu og tómatsósu í snúðana og við erum öll sammála um að tómatsósan sé mun betri og ég held mig því alfarið við hana. Mér þykir heimabakað brauðmeti með geri yfirleitt ekki geymast vel og frysti því alltaf snúðana á meðan þeir eru enn heitir. Það er síðan lítið mál að leyfa örbylgjuofninum að hita þá aftur og þá verða þeir alltaf eins og nýbakaðir.

Pizzasnúðar

 • 1 bréf þurrger
 • 5 dl mjólk (37°heit)
 • 3 msk ólívuolía
 • 1 tsk salt
 • 1 msk sykur
 • 1 egg
 • ca 14 dl hveiti

Fylling

 • 200 gr skinka
 • ca 1 dl tómatsósa
 • 3 dl rifinn ostur
 • 2 msk oregano

Til að pensla með

 • 1 egg
 • maldonsalt og oregano

Blandið saman þurrgerinu og smá af fingurheitri mjólkinni. Setjið afganginn af mjólkinni út í ásamt ólívuolíunni, saltinu, sykrinum og egginu. Setjið nánast allt hveitið saman við  (passið að setja ekki of mikið) og vinnið deigið vel saman. Ég hnoða það í ca 5 mínútur í hrærivélinni. Látið deigið hefast á hlýjum stað í amk 30 mínútur.

Skerið skinkuna niður og raðið möffinsformum á ofnplötur.

Þegar deigið er búið að hefast er það lagt á mjölað borð og hnoðað létt saman. Skiptið deiginu í tvo hluta og fletjið hvorn hluta í aflanga köku. Smyrjið tómatsósu á og stráið skinkubitum, osti og oregano yfir. Rúllið deiginu saman og skerið hverja rúllu í ca 12-15 bita. Leggið bitana í möffinsformin og leyfið þeim að hefast í amk 30 mínútur.

Hitið ofninn í 225°. Penslið snúðana með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti og oregano yfir. Bakið snúðana í miðjum ofni í 12-15 mínútur.