Pastagratín

Í síðustu viku eldaði ég pastagratín í kvöldmat. Uppskriftin reyndist svo stór að hún dugði okkur í kvöldverð tvö kvöld í röð og í nesti fyrir tvo!  Í hversdagsamstrinu, og sérstaklega þegar skutl á æfingar lendir á matartíma, þykir mér algjör lúxus að þurfa ekki að hafa meira fyrir kvöldmatnum en að hita upp frá deginum áður. Bragðið verður bara meira og betra þegar rétturinn hefur fengið að standa og það má alltaf hafa annað meðlæti fyrir þá sem vilja tilbreytingu.

Við borðuðum gratínið í nokkrum ólíkum útfærslum. Sumir fengu sér hvítlauksbrauð og tómatsósu með því á meðan ég hrúgaði parmesan yfir réttinn og fékk mér spínatsalat með fetaosti og balsamikgljá  með. Súpergott!

Pastagratín – uppskrift fyrir 6-8 (eða jafnvel 10-12!)

  • 400 g spaghetti
  • 2 kúlur af mozzarella

Kjötsósan

  • 400 g nautahakk
  • 400 g hakkaðir tómatar í dós
  • 400 g tómatmauk í dós
  • 1 laukur
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 tsk þurrkað oregano
  • 2 tsk þurrkuð basilika
  • 2 tsk paprikukrydd
  • 1-2 tsk dijonsinnep (má sleppa)
  • 1 msk sojasósa
  • 1 msk balsamikedik eða sykur
  • 1 grænmetisteningur
  • smá chili explotion krydd eða sambal oelek
  • salt og pipar

Sósa

  • 5 dl sýrður rjómi
  • 150 rifinn ostur
  • 1 hvítlauksrif, pressað

Yfir réttinn

  • 50 g rifinn ostur
Skerið lauk smátt. Hitið olíu á pönnu og mýkið laukinn. Bætið nautahakkinu á pönnuna ásamt pressuðum hvítlauki og kryddið með oregano og basiliku. Steikið þar til nautahakkið er fulleldað. Bætið hökkuðum tómötum, tómatmauki, paprikukryddi, dijonsinnepi, sojasósu, balsamikediki, chili explotion og grænmetisteningi á pönnuna og látið sjóða saman undir loki í 20-30 mínútur. Smakkið til með salti og pipar.
Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu, hellið vatninu frá og leggið til hliðar.
Hrærið sýrðum rjóma, rifnum osti og pressuðu hvítlauksrifi saman. Skerið mozzarella í þunnar sneiðar.

Samsetning:

Setjið helminginn af sýrða rjóma sósunni í botninn á eldföstu móti (í ca stærðinni 25 x 30 cm). Setjið spaghettí yfir. Setjið hinn helminginn af sýrða rjóma sósunni yfir og leggið mozzarellasneiðar yfir. Setjið kjötsósuna yfir og leggið sneiðar af mozzarella yfir kjötsósuna. Endið á að setja rifinn ost yfir réttinn. Setjið í 200° heitan ofn í 20-30 mínútur.