Mexíkósk kjötsúpa

Ég er búin að eiga alveg frábæran matardag í dag. Ég byrjaði daginn á dásamlegu heimabökuðu grófu brauði, í hádeginu fór ég svo með vinkonum mínum á Happ þar sem ég fékk æðislega kjúklingasamloku og í kvöldmat eldaði ég síðan mexíkóska kjötsúpu sem mér þykir svo haustleg.

Þessi súpa er æðisleg á svona kvöldum. Þegar það er dimmt og kalt úti þá þykir mér svo notalegt að sitja inni með súpuskál. Það tekur stutta stund að útbúa hana og hún er mjög fjölskylduvæn. Ég ber hana ýmist fram með nýbökuðu baguette brauði eða nachos flögum.  Í kvöld bar ég hana þó fram með hvítlauksbrauði sem okkur fannst ekki svo galið með.

Ég held að uppskriftin komi upphaflega úr sænskri matreiðslubók sem er ætluð fyrir barnafjölskyldur og heitir Kom in och ät, eða Komið inn og borðið. Ég fann uppskriftina hins vegar í sænsku tímariti sem heitir Family Living þar sem höfundur matreiðslubókarinnar gaf nokkrar uppskriftir, hverri annarri girnilegri.

Mexíkósk kjötsúpa

  • 200 gr nautahakk
  • 1 laukur, fínhakkaður
  • 1 rifið hvítlauksrif
  • 3 msk ólívuolía
  • 2 tsk cummin
  • 2 tsk paprikuduft
  • 1 tsk karrý
  • 1 msk oreganó
  • 3 msk tómatpuré
  • 1 líter kjötkraftur (vatn og 1-2 kjötkraftsteningar, mér þykir gott að nota nauta- og grænmetisteninga)
  • 4 kartöflur, skornar í teninga
  • 1 rauð paprika, fínhökkuð

Steikið lauk og hvítlauk í olíunni og leggið til hliðar. Steikið nautahakk með kryddum og tómatpuré. Bætið laukunum út í ásamt kjötkrafti, kartöflum og papriku. Sjóðið í 30 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og heitu baguette.