Mér þykir hakk og spaghettí vera frábær hversdagsmatur. Það tekur svo stutta stund að útbúa hann og ef ég á sýrðan rjóma og chili explotion krydd þá þykir mér útkoman alltaf verða góð. Þegar ég veit að það stefnir í seinan dag þá tek ég stundum upp á því að gera kjötsósuna kvöldið áður og hita hana síðan bara upp daginn eftir á meðan spaghettíið sýður. Ef það verður afgangur nýti ég hann alltaf. Þeir fara ýmist í nestisbox inn í frysti, á brauðsneiðar smurðar með tómatsósu, kjötsósu og osti inn í ofn eða á pizzur. Þá set ég pizzasósu yfir botninn, krydda með oregano, set síðan kjötsósuna og toppa með rifnum osti. Einfalt og stórgott!
Hakk og spaghetti
- 1 laukur, hakkaður
- 25 g smjör
- 2 msk ólívuolía
- paprikukrydd
- 1/2 fræhreinsað chili, hakkað
- 3 hvítlauksrif, hökkuð
- 500 g nautahakk
- 400 g hakkaðir tómatar (1 dós)
- 1½ tsk tómatpuré
- 4 msk tómatsósa
- 3 msk kálfakraftur (kalvfond)
- 1 dl sýrður rjómi
- chili explotion (krydd í kvörn frá Santa Maria)
- salt og pipar
Hakkið laukinn og mýkið hann í smjöri og ólívuolíu við mjög lágann hita í um 10 mínútur. Saltið, piprið og kryddið með paprikukryddi. Bætið hökkuðu chili og hvítlauk saman við og látið malla aðeins áfram á pönnunni með lauknum. Bætið nautahakkinu á pönnuna. Þegar nautahakkið er fullsteikt er tómötum, kálfakrafti, tómatpuré og tómatsósu hrært saman við. Látið sjóða við vægan hita eins lengi og kostur er en að minsta kosti í 30 mínútur. Ef ykkur þykir blandan verða þurr þá bætið þið smá vatni og ólívuolíu saman við. Kryddið með salti, pipar og chili explotion. Að lokum er sýrðum rjóma hrært út í og látin sjóða með síðustu mínúturnar.
Berið fram með pasta og ferskrifnum parmesan. Ef þið eigið ferska basiliku skuluð þið ekki hika við að saxa hana yfir!
