Milljón dollara spaghetti

Ég get ekki á mér setið og hreinlega verð að þakka allar heimsóknirnar sem matarbloggið mitt hefur fengið. Síðan ég byrjaði að blogga í sumar hafa þær aukist jafnt og þétt og í síðasta mánuði voru heimsóknirnar rétt um 95.000! Mér þykir svo ofboðslega vænt um að svona margir skuli hafa áhuga á að fylgjast með litla blogginu mínu. Öll kommentin, like-in á Facebooksíðunni og tölvupóstarnir sem ég hef fengið, ég á ekki orð til að lýsa því hvað þetta gleður mig mikið. Kveðjurnar hlýja mér út veturinn og vel það. Þúsund þakkir og knús til ykkar allra.

Ég eldaði um daginn rétt sem allir elska, milljón dollara spaghetti. Uppskriftin er amerísk og er góð eftir því. Ég veit ekki hvaðan rétturinn fékk þetta stórfenglega nafn en hann er bæði fjölskylduvænn og góður.

Milljón dollara spaghetti

  • 450 gr nautahakk (eða 1 bakki)
  • 1 dós pastasósa
  • 225 gr rjómaostur
  • 1/4 bolli sýrður rjómi
  • 225 gr kotasæla
  • 110 gr smjör
  • 225 gr spaghetti
  • rifinn cheddar ostur

Hitið ofninn í 180°. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og kotasælu þar til það hefur blandast mjög vel. Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið eftir smekk. Hellið vökvanum frá og brúnið hakkið vel. Hellið pastasósu yfir og látið sjóða við vægan hita í smá stund.

Leggið smjörklípur í botninn á eldföstu móti (ef smjörið er kallt er gott að nota ostaskera í verkið). Setjið helminginn af spaghettíinu í botninn á eldfasta mótinu. Hellið rjómaostablöndunni yfir spaghettíið og dreifið vel úr henni. Setjið afganginn af spaghettíinu yfir rjómaostablönduna, leggið nokkrar smjörklípur yfir og endið á að hella hakksósunni yfir spaghettíið.  Dreifið vel úr hakksósunni og bakið í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur er rétturinn tekinn úr ofninum og rifnum cheddar osti dreift yfir. Setjið réttinn aftur í ofninn í 15 mínútur.

Spaghetti bolognese

Þá er hversdagsleikinn tekinn aftur við og viðeigandi að bjóða upp á hversdagslegan rétt, spaghetti bolognese. Þetta er einn af þeim réttum sem ég elda hvað oftast og við fáum ekki leið á honum. Rétturinn breytist reglulega en þessi útgáfa hefur fengið að hanga með lengi og er sú sem ég nota oftast. Hér áður fyrr setti ég alltaf sveppi, zuccini, papriku og lauk út í hakkið og hellti síðan pastasósu yfir en krökkunum fannst ekki gott að hafa allt þetta grænmeti í sósunni. Ég ákvað því að hætta því og byrjaði að breyta aðeins uppskriftinni. Við erum öll sammála um að finnast rétturinn bara betri fyrir vikið.

Mér finnst lykilatriðið við góða bolognese sósu vera að bæta sýrðum rjóma út í hana ásamt smá hunangi. Síðan þykir mér Chili Explosion kryddið frá Santa Maria ómissandi. Þó að það hljómi sem hræðilega strerkt krydd þá er það frekar milt og það er ekki hægt að nota of mikið af því. Rjómasletta finnst mér alltaf til bóta og hika ekki við að nota ef ég á til.

Ég geri bolognese sósuna aldrei eftir nákvæmum málum (gerir það einhver?) en svona er hún nokkurn veginn.

Spaghetti bolognese

  • ca 500 gr nautahakk (einn bakki)
  • 1 laukur
  • 1 rauð paprika
  • 1 krukka Dolmio pastasósa með extra hvítlauk (fæst m.a. í Bónus og Nettó)
  • 1 dós sýrður rjómi (ef ég á venjulegan rjóma þá nota ég hálfa dós af sýrðum rjóma og rjóma á móti)
  • 1/2 – 1 grænmetisteningur
  • ca 2-3 msk fljótandi hunang
  • smá sinnep (má sleppa)
  • chili explosion krydd frá Santa Maria
  • salt, pipar og paprikukrydd

Steikið hakkið á pönnu og þegar það byrjar að brúnast er lauknum bætt á pönnuna. Steikið áfram þar til laukurinn verður mjúkur og ef ég á papriku þá sker ég hana smátt og bæti á pönnuna í lokin. Kryddið aðeins með Kød og grill kryddi eða Lawrey´s seasoned salt og piprið. Bætið Dolmio pastasósunni á pönnuna ásamt sýrða rjómanum og rjómanum (ef þið eigið hann), 1/2 grænmetisteningi, hunangi, smá sinnepi og vel af chilli explosion kryddinu (ekki vera hrædd við það).  Leyfið að sjóða um stund og smakkið til, bætið jafnvel meiri krafti út í eða meira af chilli explosion kryddinu. Mér þykir líka gott að krydda aðeins með paprikukryddi. Ef sósan er of sterk bæti ég meiri rjóma eða sýrðum rjóma út í.

Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er soðið er vatninu hellt af, spaghettiið sett í skál og væn smjörklípa látin bráðna yfir það.

Berið bolognes sósuna fram með spaghetti, ferskum parmesan osti og hvítlauksbrauði. Okkur finnst líka æðislega gott að hafa kartöflumús með en ætli ítalskar ömmur myndu ekki snúa sér við í gröfinni ef þær fréttu það.