Ég get ekki á mér setið og hreinlega verð að þakka allar heimsóknirnar sem matarbloggið mitt hefur fengið. Síðan ég byrjaði að blogga í sumar hafa þær aukist jafnt og þétt og í síðasta mánuði voru heimsóknirnar rétt um 95.000! Mér þykir svo ofboðslega vænt um að svona margir skuli hafa áhuga á að fylgjast með litla blogginu mínu. Öll kommentin, like-in á Facebooksíðunni og tölvupóstarnir sem ég hef fengið, ég á ekki orð til að lýsa því hvað þetta gleður mig mikið. Kveðjurnar hlýja mér út veturinn og vel það. Þúsund þakkir og knús til ykkar allra.
Ég eldaði um daginn rétt sem allir elska, milljón dollara spaghetti. Uppskriftin er amerísk og er góð eftir því. Ég veit ekki hvaðan rétturinn fékk þetta stórfenglega nafn en hann er bæði fjölskylduvænn og góður.
Milljón dollara spaghetti
- 450 gr nautahakk (eða 1 bakki)
- 1 dós pastasósa
- 225 gr rjómaostur
- 1/4 bolli sýrður rjómi
- 225 gr kotasæla
- 110 gr smjör
- 225 gr spaghetti
- rifinn cheddar ostur
Hitið ofninn í 180°. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og kotasælu þar til það hefur blandast mjög vel. Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið eftir smekk. Hellið vökvanum frá og brúnið hakkið vel. Hellið pastasósu yfir og látið sjóða við vægan hita í smá stund.
Leggið smjörklípur í botninn á eldföstu móti (ef smjörið er kallt er gott að nota ostaskera í verkið). Setjið helminginn af spaghettíinu í botninn á eldfasta mótinu. Hellið rjómaostablöndunni yfir spaghettíið og dreifið vel úr henni. Setjið afganginn af spaghettíinu yfir rjómaostablönduna, leggið nokkrar smjörklípur yfir og endið á að hella hakksósunni yfir spaghettíið. Dreifið vel úr hakksósunni og bakið í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur er rétturinn tekinn úr ofninum og rifnum cheddar osti dreift yfir. Setjið réttinn aftur í ofninn í 15 mínútur.