Þá er enn ein helgin framundan og hjá mörgum sú síðasta af sumarfríinu. Grunnskólarnir byrja strax eftir helgi og því fer lífið hér á bæ að detta í rútínu aftur. Mér þykir ótrúlegt að strákarnir mínir séu að byrja í 9. bekk og Malín að hefja sitt þriðja menntaskólaár. Tíminn líður svo skelfilega hratt að það nær engri átt.
Helgin býður bæði upp á Reykjavíkurmaraþon og menningarnótt en ég sigli á móti straumnum og stefni út fyrir borgina. Það verður ljúft. Ostar, rauðvín og nautalund eru á helgarmatseðlinum og áður en ég held áfram leitinni að hinum fullkomna eftirrétti ætla ég að gefa ykkur uppskrift af heilsusamlegri föstudagspizzu. Ég bauð upp á hana hér heima um daginn og allir borðuðu með bestu lyst. Hefðbundnum hveitibotni er skipt út fyrir blómkálsbotn sem kemur skemmtilega á óvart og er bæði einfalt og gott.
Blómkálspizzabotn (uppskriftin gefur 2 þunna botna)
- 250 g ferskur mozzarella, rifinn (2 stórar kúlur)
- 1 blómkálshaus, meðalstór
- 2 egg
- 70 g parmesanostur, rifinn
- salt og pipar
Hitið ofninn í 200°. Rífið mozzarella, blómkál og parmesanost og blandið saman við eggin. Saltið og piprið. Fletjið þunnt út á tvær ofnplötur og bakið í 20 mínútur. Takið botnana úr ofninum, setjið á álegg eftir smekk og látið síðan aftur í ofninn í 5 mínútur.