Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði

Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði

Í gær héldu Svíar dag heilagrar Lúsíu, Santa Lucia, hátíðlegann. Á Svíþjóðarárum okkar biðu krakkarnir full tilhlökkunar eftir að dagurinn rynni upp og þegar svo gerði klæddum við Malínu í hvítan skósíðan kjól, bundum rauða slaufu um mittið og settum kertakórónu á höfuðið. Strákarnir voru ýmist klæddir sem jólasveinar eða piparkökukarlar og þannig héldu krakkarnir í skólann og leikskólann, með fiðrildi í maganum. Síðar um daginn fylgdumst við Öggi tárvot með þeim ásamt skólafélögum koma gangandi í myrkrinu með kerti í höndunum syngjandi Santa Lucia, hver með sínu nefi. Eftir sönginn var boðið upp á lúsíukaffi í leikskólanum. Ég mun einnig seint gleyma lúsíutónleikunum sem við Öggi fórum á í dómkirkjunni í Uppsölum fyrstu jólin okkar þar. Hátíðleikinn og fegurðin sem við upplifðum þar verða seint toppuð. Þetta voru svo fallegir dagar.

Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði

Þar sem Svíþjóðarnostalgían blundar alltaf í okkur (og kannski aðallega mér) þá ákváðum við að bjóða vinum okkar, sem bjuggu á sama tíma og við í Uppsölum, til okkar í sænskt jólahlaðborð í gær. Við fylgdum öllum kúnstarinnar reglum og buðum upp á hefðbundinn sænskan jólamat, spiluðum sænsk jólalög og flögguðum sænska fánanum á hlaðborðinu. Ég mun eflaust birta hér matseðilinn fljótlega, þó ekki væri nema bara fyrir mig til að geta rifjað hann upp að ári liðnu, en í dag ætla ég að gefa uppskrift af jólasælgæti sem fékk að fljóta með á eftirréttarborðinu í gær. Undir lok kvölds var ég farin að dýfa þessum piparmyntustykkjum í súkkulaðimús sem stóð einnig á borðinu og hefði getað haldið því endalaust áfram. Ég hlakka til að fá mér þau með heitu súkkulaði á morgun.

Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði

Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði (uppskrift frá Shutterbean)

  • 450 g gott hvítt súkkulaði
  • 2 bollar Rice Krispies
  • 2 pokar Bismark brjóstsykur (150 g. hvor poki)

Setjið brjóstsykurinn í plastpoka og myljið, t.d. með buffhamri. Takið fínustu mylsnuna frá, það getur verið sniðugt að geyma hana og nota t.d. í þeyttan rjóma eða út á heitt súkkulaði.

Stökk piparmyntustykki með hvítu súkkulaði

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Hrærið Rice Krispies saman við. Setjið blönduna á bökunarpappír og deifið úr henni í um það bil stærðina 25 x 35 cm. Stráið brjóstsykurbrotunum yfir, leggið bökunarpappír yfir og þrýstið ofan á til að brjóstsykurinn festist í súkkulaðinu. Kælið í 20-30 mínútur, ekki lengur því þá getur brjóstsykurinn mýkst.

Takið bökunarpappírinn af. Brjótið piparmyntustykkið í bita og geymið við stofuhita í loftþéttum umbúðum. Stykkin geymast í um viku.