Kjúklinganaggar með basilikusósu

Þessir kjúklinganaggar vekja alltaf lukku hjá börnunum og okkur þykja þeir svo miklu betri heldur en keyptir naggar. Það er varla hægt að líkja þeim saman.

Mér finnst þetta vera ekta föstudagsmatur sem hægt er að borða fyrir framan sjónvarpið. Ég fylli stóran disk af nöggum, set franskar kartöflur í skál, sósur í litlar skálar og legg á sjónvarpsborðið. Með þessu hef ég síðan ískalt gos.

Það er eflaust best að gera brauðraspinn sjálfur en ef ég á að vera hreinskilin þá nota ég alltaf ströbröd frá Euroshopper. Hann er fíngerðari en íslenski raspurinn og mér finnst hann passa svo vel á naggana. Krakkarnir borða naggana með kokteilsósu, tómatsósu og frönskum en við Öggi fáum okkur salat og basilikusósu með þeim.

Kjúklinganaggar

  • 500 gr kjúklingabringur
  • 1 egg
  • 1 dl brauðraspur
  • 1/2 dl fínrifinn parmesan (má alveg vera keyptur tilbúinn)
  • 1 tsk sítrónupipar
  • smá salt
  • smjör og olía til að steikja í

Basilikusósa

  • 2 dl sýrður rjómi
  • 1 búnt fersk basilika
  • 1/2 tsk salt

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Hrærið eggið létt með gaffli. Blandið í annari skál saman brauðraspi, parmesan, sítrónupipar og salti. Dýfið kjúklingabitunum fyrst í hrærða eggið og síðan í brauðraspblönduna. Steikið bitana í blöndu af smjöri og olíu þar til þeir fá fallegan lit. Ég hef pönnuna á miðlungsháum hita (stillingu 7 af 9) til að þeir nái að eldast í gegn án þess að brenna. Passið að kjúklingurinn sé steiktur í gegn.

Maukið basilikuna með töfrasprota í smá sýrðum rjóma. Blandið saman við restina af sýrða rjómanum og saltið.