Dagurinn hefur verið hinn ljúfasti í alla staði. Við erum búin að fara í afmæli, gera vikuinnkaupin, horfa á sjónvarpið og vera í algjörum rólegheitum. Okkur langaði í eitthvað gott í kvöldmat og ég endaði á að elda enn einn réttinn úr Jamie Oliver ársblaðinu, satay-kjúklinganúðlur.
Þetta blað fer að vera með betri kaupum sem ég hef gert í matreiðslublöðum. Það virðist sama hvað ég elda úr því, allt hefur verið ljómandi gott. Okkur þóttu þessar satay-kjúklinganúðlur alveg stórgóðar og kláruðum þær upp til agna.
Ég veit ekki hvað gerðist hjá mér í matvörubúðinni í dag því ég gleymdi að kaupa tvennt af innkaupalistanum og bæði hráefnin voru fyrir þessar kjúklinganúðlur, baunaspírur og vorlaukur. Ég nennti ómöglega að fara aðra ferð í búðina og sleppti þeim því bara. Það kom ekki að sök en næst mun ég hafa þau með.
Satay-kjúklinganúðlur (uppskrift fyrir 2-3)
- jarðhnetuolía (ég notað vegetable oil)
- 1 laukur, skorin í þunna báta
- 2 hvítlauksrif, söxuð
- 1 rautt chili, fræhreinsað og skorið í sneiðar
- engiferbútur á stærð við þumal, rifið
- 1 lemongrass (ég notaði hýði af hálfri sítrónu í staðin)
- 3 kjúklingabringur, skornar í sneiðar
- 50 gr crunchy hnetusmjör (rúmlega 3 msk)
- 2 msk fiskisósa (fish sause)
- 2 msk sojasósa
- 1 msk sykur
- 400 ml kókosmjólk (1 dós)
- 200 gr núðlur
- handfylli af baunaspírum
- lime skorið í báta og vorlaukur til að bera fram með réttinum
Hitið olíuna á pönnu og steikið lauk, hvítlauk, rautt chili, engifer og sítrónuhýði þar til það byrjar að taka lit. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í nokkrar mínútur. Bætið hnetusmjöri, fiskisósu, sojasósu, sykri og kókosmjólk á pönnuna og látið suðuna koma upp. Sjóðið við vægan hita í 5-10 mínútur.
Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakkningu. Blandið kjúklingnum saman við núðlurnar ásamt baunaspírunum. Berið fram með lime-bátum og vorlauk.