Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.
Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.
Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.
Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum
- 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
- 2 dl sýrður rjómi
- 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
- 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
- ferskmalaður pipar
- 1 lítill púrrulaukur
- 1 msk + 1 msk olía
- 1 dl vatn
Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.
Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu. Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.
Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.