Lauksúpa með beikonkurli og steiktu hvítlauksbrauði

Við vorum að koma heim úr frábærri konfektveislu hjá Nóa Síríusi. Gunnar var fjarri góðu gamni þar sem hann var á fimleikaæfingu en Malín og Jakob komu með okkur og voru í skýjunum yfir boðinu. Þetta var algjört súkkulaðihimnaríki sem við nutum góðs af undir ljúfum tónum og skemmtiatriðum. Um leið og við mættum sáum við undir yljarnar á Jakobi sem var staðráðinn í að missa ekki af neinu og smakkaði hvern einasta mola sem í boði var. Þegar hann kom að súkkulaðigosbrunninum stakk hann glasi undir og fékk sér sjúss. Hann kann að gera vel við sig.

Jakob var svo heppinn að vinna konfektkassa af stærstu gerð í happdrætti og þar að auki voru allir gestir leystir út með veglegum gjöfum, konfektkassa og vandaðri bók, Súkkulaðiást. Börnin voru kvödd með gjafapoka, fullum af  sælgæti, sem vakti mikla lukku.

Eftir þessa veislu var enginn svangur og því fór lítið fyrir kvöldmatnum hjá okkur. Ég eldaði hins vegar frábæra súpu í síðustu viku sem hefur ekki enn verið birt hér. Ég nýti mér það og gef uppskriftina því núna.

Lauksúpa með beikonkurli og steiktu hvítlauksbrauði

 • 2-3 msk smjör
 • maizena
 • 6-7 laukar
 • 7,5 dl vatn
 • 2,5 dl rjómi
 • 1 kjúklingateningur
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 msk hakkað ferskt timjan (eða 1 tsk þurrkað)
 • smá af hvítum pipar
 • 170 g beikon
 • baquette
 • hvítlauksrif

Skerið laukinn í þunnar sneiðar og mýkið í smjöri við vægan hita. Laukurinn á ekki að brúnast heldur bara að verða mjúkur. Hellið vatni og rjóma yfir og setjið teninga og krydd út í. Látið sjóða við vægan hita í 15-20 mínútur og þykkið með maizena.

Skerið beikonið niður og steikið á pönnu. Þegar beikonið er tilbúið er það tekið af pönnunni og lagt á eldhúspappír. Ekki þrífa pönnuna.

Skerið baquette í sneiðar. Hitið ólivuolíu á pönnunni sem að beikonið var steikt á, pressið hvítlauksrif út í og steikið baquette-sneiðarnar.

Berið súpuna fram með beikonkurlinu og hvítlauksbrauðinu.