Ítalskur lax með fetaostasósu

Ítalskur lax með fetaostasósuÍtalskur lax með fetaostasósu

Eins og eflaust á mörgum heimilum landsins þá eru mánudagar oftar en ekki fiskidagar hér heima. Eftir matarveislu helgarinnar er svo gott að fá fiskinn. Við gerðum vel við okkur þessa helgina, borðuðum gott og keyrðum bæinn þveran eftir ís bæði á laugardag og sunnudag. Það var því sérlega gott að fá mánudagsfiskinn í dag.

Þessi laxréttur er dásamlegur í alla staði og fellur vel í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Ég blanda oftast laxi og þorski þar sem krökkunum þykir gott að hafa valið en hér má leika sér með þær fisktegundir sem lokka að hverju sinni. Sósan setur síðan punktinn yfir i-ið á þessum stórgóða rétti.

Ítalskur lax með fetaostasósu

Ítalskur lax með fetaostasósu

 • 600 g lax (eða blanda af laxi og þorski)
 • sólþurrkaðir tómatar í olíu, magn eftir smekk
 • 1 hvítlauksrif
 • gróft salt
 • 10 kartöflur
 • klettasalat

Hitið ofninn í 225°.  Afhýðið kartöflurnar, skerið þær í bita og dreifið úr þeim á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið hálfan dl af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum í skál og pressið hvítlauksrifið í olíuna. Hellið olíunni yfir kartöflurnar og setjið í ofninn í um 20 mínútur.

Skerið laxinn (og þorskinn sé hann notaður) í bita sem eru um 2×2 cm að stærð. Þegar kartöflurnar hafa verið í ofninum í 20 mínútur er laxinum bætt á ofnplötuna, nokkrar matskeiðar af olíunni frá sólþurrkuðu tómötunum sáldrað yfir ásamt grófu salti og sett aftur í ofninn í 10 mínútur til viðbótar. Þegar laxinn og kartöflurnar koma úr ofninum er hökkuðum sólþurrkuðum tómötum stráð yfir ásamt klettasalati. Setjið réttinn á fallegt fat og berið fram með fetaostasósu.

Fetaostasósa

 • 1 dl sýrður rjómi
 • 100 g fetakubbur
 • 1/2 hvítlauksrif, pressað
 • salt
 • ítalskt salatkrydd

Myljið fetaostinn og hrærið saman við sýrða rjómann. Pressið hvítlaukinn saman við og smakkið til með salti og ítölsku salatkryddi. Geymið í ísskáp þar til sósan er borin fram.