Við byrjum nýja árið með brakandi ferska túlípana á stofuborðinu. Eftir áramótin vil ég alltaf fríska upp á heimilið og mér þykja skjannahvítir túlípanar svo sannarlega gera það. Þó að þessir túlípanar hafa staðið á stofuborðinu í heila viku eru þeir enn ferskir og fallegir. Ég held að galdurinn við að láta þá standa lengi sé að hafa alltaf lítið og kalt vatn á þeim og lauma klökum reglulega í vatnið. Það hefur í það minnsta reynst mér vel.
Þó það séu eflaust allir komnir með nóg af sætindum í bili þá get ég ekki staðist að setja inn uppskriftina að hinum eftirréttinum frá áramótunum, marensrúllunni með ástaraldin. Mér finnst bara ekki hægt að kveðja áramótin án þess að deila þessari uppskrift með ykkur. Þar að auki óskaði blogglesandi eftir uppskriftinni og ég gef því uppskriftina með sérlega mikilli gleði.
Þessi marensrúlla er í miklu uppáhaldi hjá okkur og þegar Malín fermdist síðasta vor þá óskaði hún eftir henni á veisluborðið. Ég byrjaði að dunda mér við að baka þær tveimur vikum fyrir ferminguna og fannst góð tilfinning að eiga marensrúllurnar tilbúnar í frystinum á lokaspretti fermingarundirbúningsins.
Marensrúllan er fastur liður á eftirréttaborðinu um áramót hjá okkur og það má alls ekki sleppa henni. Bæði börn og fullorðnir elska hana enda er hún bæði sæt og fersk á sama tíma. Yfirleitt skreyti ég hana með jarðaberjum eða hindberjum en við gleymdum að kaupa berin um þessi áramót. Það breytti engu því kakan er hreinn draumur og þarf engin ber, nema þá helst til skrauts.
Marensrúlla með ástaraldin
- 4 stórar eggjahvítur
- 3 dl sykur
- hjartarsalt á hnífsoddi
- 1 ½ bolli Rice krispies
Þeytið eggjahvítur, sykur og hjartarsalt saman í drjúga stund. Hrærið Rice krispies varlega saman við með sleif. Setjið á bökunarplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið deigið mynda eins stóran ferhyrning og platan ber. Bakið við 135° (ekki blástur) í 50 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna.
- ½ líter rjómi
- 5 ástaraldin
Takið marensinn af smjörpappírnum og snúið á hvolf. Smyrjið rjómanum yfir og innihaldinu úr ástaraldinum er dreift yfir rjómann. Marensinum er rúllað upp frá langhliðinni. Fallegt að skreyta rúlluna með ástaraldin eða jafnvel jarða- eða hindberjum.