Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur

Haustflensan hefur gengið yfir heimilið í vikunni. Öggi var heima með Gunnar veikan á þriðjudaginn og í morgun vaknaði Jakob veikur. Ég er búin að vera heima með honum í dag og við erum búin að hafa það mjög huggulegt þrátt fyrir slappleika. Við Jakob erum alveg sammála um að heitt súkkulaði sé allra meina bót og ákváðum að gera heitan Nutella-súkkulaðidrykk. Við þeyttum líka rjóma og hökkuðum súkkulaði sem við settum yfir. Þetta höfðum við tilbúið þegar Malín og Gunnar komu heim úr skólanum við slógum rækilega í gegn með uppátækinu.

Ég má til með að gefa uppskriftina, þó einföld sé, að Nutella-súkkulaðidrykknum því hann er algjört æði og krakkarnir eru sammála um að hann sé mun betri en venjulegt heitt súkkulaði. Uppskriftin kemur frá The Sisters Café.

Heitur Nutella-súkkulaðidrykkur (fyrir 1)

  • 2 msk Nutella
  • 1 bolli mjólk

Hitið Nutella og mjólk saman í potti. Hellið heitri súkkulaðimjólkinni í könnu, setjið væna rjómaslettu og hakkað súkkulaði yfir og njótið.