Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk tölvupóst frá Svanhvíti systur minni sem býr í Kaupmannahöfn þar sem hún sagðist vera orðin langeyg eftir uppskrift að kökunni sem ég bauð henni og manninum hennar upp á þegar þau voru stödd hér á landinu um daginn. Maðurinn hennar var svo hrifinn af kökunni að hann hefur ekki hægt að hugsa um hana. Svanhvít ætlar því að baka hana fyrir hann og ég stekk að sjálfsögðu til og birti uppskriftina hér í einum grænum.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ég fékk uppskriftina senda eins og bréf frá himnum eftir að hafa setið og velt því fyrir mér hvað ég ætti að hafa í eftirrétt handa þeim. Unnur, mágkona mín sem er búsett í Svíþjóð, hafði keypt sér matreiðslublað þar sem þessa uppskrift var að finna. Hún veit hvað ég er veik fyrir góðum kökum og ákvað því að taka mynd af uppskriftinni og senda mér. Ég hugsaði extra hlýtt til hennar að kvöldi sama dags þegar ég bar kökuna fram, aðeins of mikið bakaða en samt svo dásamlega góða.

Ostakökubrownies með bismarkrjóma

Ostakökubrownies

Browniesdeigið:

 • 200 g smjör
 • 200 g dökkt súkkulaði
 • 4½ dl flórsykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 3 egg
 • 2 dl hveiti

Ostakökudeigið:

 • 200 g rjómaostur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 1 dl flórsykur
 • 1 egg

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið. Hakkið súkkulaðið og látið það bráðna í smjörinu. Hrærið saman flórsykur, vanillusykur og egg. Hellið blöndunni í súkkulaðismjörið. Hrærið hveitinu varlega saman við.

Ostakökudeigið: Hrærið rjómaost, vanillusykur, flórsykur og egg saman þar til blandan verður slétt.

Setjið smjörpappír í skúffukökuform (ca 25×35 cm). Setjið súkkulaðideigið í formið. Hellið ostakökudeiginu yfir og blandið deigunum varlega saman með skeið. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur. Látið kólna í forminu og skerið svo í bita.

Bismarkrjómi

 • 1 dl bismarkbrjóstsykur
 • 3 dl þeyttur rjómi

Myljið bismarkbrjóstsykurinn fínt niður. Þeytið rjómann og blandið saman við bismarkmulninginn.