Skinku- og spergilkálsbaka

Ég hef ekki nennt að versla inn eftir að við komum frá Akureyri og er að spá í að nota vikuna í að elda úr því sem er til í ískápnum og frystinum. Mér þykir oft gaman þegar það hefur safnast í ískápinn að úthugsa hvað hægt sé að elda úr því. Nú ætla ég að reyna að láta það sem til er duga fram að helgi.

Ég gerði böku í kvöldmat sem við gerðum okkur að góðu og vel það. Malín fór í bíó með vinkonum sínum og minnstu munaði að við hefðum klárað bökuna áður en hún kom heim. Sem betur fer gerðum við það ekki því Malínu þótti hún stórkostlega góð.

Skinku- og spergilkálsbaka

Skelin:

  • 5 dl hveiti
  • 250 g kalt smör í teningum
  • 1 tsk salt
  • 4 msk kalt vatn

Fylling:

  • ca 150 gr skinka
  • 1/2 box beikonsmurostur
  • 2,5 dl sýrður rjómi
  • 1 dl rifinn cheddar ostur
  • 2 egg
  • salt og pipar
  • ferskt spergilkál
  • rifinn cheddar ostur til að setja yfir bökuna

Hitið ofninn í 220°. Vinnið hráefnin í skelina saman, þrýstið deiginu í bökuform og setjð í ískáp á meðan fyllingin er útbúin.

Léttsteikið skinkuna upp úr smjöri og hellið sýrðum rjóma og smurosti yfir. Hrærið eggin lítillega og bætið þeim á pönnuna. Piprið og saltið og hrærið ostinum saman við. Látið suðuna koma upp og takið svo af hitanum. Hrærið niðurskornu spergilkáli út í fyllinguna.

Setjið fyllinguna í bökuskelina og bakið í 20 mínútur. Setjið þá rifinn ost yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað.