Ég á enn vinnudag eftir þar til páskafríið hefst og ég get varla beðið. Ekki það að mér leiðist vinnan, síður en svo, heldur verður bara svo notalegt að geta vakað frameftir með krökkunum yfir bíómynd og sofið út á morgnanna.
Ég er búin að vera löt að prófa nýjar uppskriftir upp á síðkastið en gerði þó um daginn pastarétt sem okkur þótti mjög góður. Eins og með flesta pastarétti tók stutta stund að gera réttinn og á meðan einhverjir vildi hvítlauksbrauð með þá fannst öðrum það óþarfi. Sjálfri fannst mér rauðvínsglas fara afskaplega vel með matnum.
Pasta í parmesanrjómasósu með hráskinku, mozzarella og basiliku – uppskrift fyrir 4-5
- ca 300 g pasta (ósoðið)
- ca 1 dl rjómi
- ca 2 dl rifinn parmesan
- salt og pipar
- ferskur mozzarella, rifinn sundur í smærri bita
- hráskinka
- fersk basilika
- furuhnetur, þurrristaðar
Sjóðið pastaskrúfur í söltu vatni, eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið frá ca 1/2 dl af pastavatninu áður en því er hellt af pastanu. Setjið pastað aftur í pottinn og bætið rjóma og rifnum parmesan saman við. Kryddið með salti og pipar. Setjið mozzarella, hráskinku og ferska basiliku saman við. Stráið ristuðum furuhnetum yfir áður en rétturinn er borinn fram. Berið fram með pipar og auka parmesan osti.