Jakob er búinn að biðja mig um að elda þetta pylsupasta í nokkurn tíma og ég var búin að lofa honum að elda það í vikunni. Hann er svo hrifinn af pylsuréttum og ef hann fengi að ráða þá værum við með þá í hverri viku. Ég á reyndar mjög auðvelt með að láta það eftir honum því mér þykja svona réttir líka alveg æðislega góðir.
Ég verð að viðurkenna að ég hálf skammast mín fyrir að setja þessa uppskrift inn, ef uppskrift má kalla. Hún er svo ofureinföld og eiginlega bara gefin hér sem hugmynd af kvöldmat. Þá daga sem börnin eru á löngum æfingum og við erum að koma seint heim þá þykir mér mjög gott að geta gripið í svona einfaldar uppskriftir og verið með matinn á borðinu korteri síðar.
Pylsupasta með piparostasósu
- 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
- smjör
- 1 piparostur
- ½ líter matreiðslurjómi
- ½ grænmetisteningur
- smá cayanne pipar
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.
Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.