Rabarbarapæ i uppáhaldi

Ég get ekki sleppt því að setja inn uppskriftina af rabarbarapæinu sem ég er svo hrifin af. Ég gaf uppskriftina í Fréttablaðinu um helgina og er ekki að ýkja þegar ég segi að þetta rabarabarapæ er í algjöru uppáhaldi hjá mér.

Ég hef verið svo heppin að hafa fengið rabarbara síðustu ár frá vinkonu minni. Rabarbarann hef ég skorið niður og fryst í 500 gr. einingum. Þetta hefur verið mér mikill fjársjóður í frystinum og ég veit ekki hversu oft ég hef skellt í þetta rabarbarapæ þegar gesti ber að garði.

Mér þykir pæið best heitt og ef ég býð upp á það í eftirrétt þá hef ég úbúið það áður en gestirnir koma en baka það ekki fyrr en rétt áður en ég ætla að bera það fram. Ég ber pæið oftast fram með vanilluís og þykir kaldur ísinn fara æðislega vel með heitu rabarbarapæinu.

Rabarbarapæ

  • 500 gr rabarbari (ég nota hann frosinn og læt hann ekki þiðna áður)
  • 2 msk kartöflumjöl
  • 0,5 – 0,75 dl kanilsykur

Deig

  • 3,5 dl hveiti
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl sykur
  • 150 gr smjör eða smjörlíki

Hitið ofninn í 200°. ­Skerið ­rabarbarann í 1/2 cm ­þykkar sneiðar og leggið í botninn á eldföstu móti. Stráið kartöflumjöli og kanilsykri yfir.
Blandið hveiti, sykri og kókosmjöli í skál. Skerið smjörið í litla bita og bætið í skálina. ­Blandið smjörinu saman við þurr­efnin með höndunum þar til það myndast litlir kögglar og gróf mylsna. Dreifið deiginu yfir rabarbarann og bakið í miðjum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.