Eftir nánast grilllaust sumar í fyrra, þar sem gamla grillið söng sitt síðasta bæði hvað varðar gæði og útlit (undir lokin leit það út eins og klippt úr hryllingsmynd), tók ég fagnandi á móti góða veðrinu í gær með spánýju grilli sem mér þykir svo fínt að ég tími varla að nota það. Það er stórt, fallegt og dásamlegt í alla staði. Best af öllu er þó að nú get ég notið grillmats aftur án þess að eiga þá hættu að heilbrigðisyfirvöld banki upp á. Algjör lúxus!
Það var frábært grillveður og því upplagt að prófa nýja grillið. Það vildi svo heppilega til að mamma fékk sér göngutúr til okkar fyrr um daginn og kom færandi hendi, með lambalundir. Það var því nokkuð borðleggjandi að setja þær á grillið. Þar sem við fórum fullseint að huga að kvöldverðinum ákváðum við að gera einfalda marineringu og setja lundirnar í salat.
Á grillið fór líka grænmeti og keypt nan brauð og herlegheitin voru síðan borin fram með raita sósu. Þetta var æðisleg máltíð! Við gátum ekki hætt að dásama hana og borðuðum á okkur gat.
Mér var bent á það fyrir nokkru að nota PAM sprey á grillið til að maturinn festist síður við það. Það hefur virkað stórvel og því gef ég þessa grillábendingu áfram til ykkar. Vonandi fáum við nú gott grillsumar!
Grilluð Tandoori lambalund með salati
- ½ dl Tandoori spice marinade frá Patak´s
- 3 msk hrein jógúrt
- 350 g lambalundir
- 1 rauð paprika
- 1 gul paprika
- 1 rauðlaukur
- spínat
- kirsuberjatómatar
Hrærið saman Tandoori spice marinade og hreinni jógúrt. Leggið lambakjötið í marineringuna og látið standa í 30 mínútur. Takið kjötið úr marineringunni og grillið, penslið kjötið með marineringunni sem varð eftir þegar þið snúið kjötinu.
Skerið paprikur og rauðlauk gróft og grillið (endilega leikið ykkur með þetta og notið það grænmeti sem þið eruð í stuði fyrir).
Setjið spínat í skál. Dreifið grilluðu grænmeti yfir ásamt kirsuberjatómötum. Skerið lambakjötið i sneiðar og setjið yfir salatið. Skreytið með myntu og raita sósu.
Raita (uppskrift frá Ree Drummond)
- 1 stór gúrka
- 2 bollar hrein jógúrt
- 3/4 tsk cumin
- 1/4 tsk mulið kóriander (krydd, ekki ferskt)
- 1/8 tsk cayenne
- safi úr 1 sítrónu
- salt og pipar
- 1/4 bolli hökkuð fersk mynta
Skerið gúrkuna í tvennt, eftir henni endilangri. Notið skeið til að skrapa kjarnann úr og rífið síðan gúrkuna með rifjárni. Setjið rifna gúrkuna í eldhúspappír og kreistið safann frá.
Hærið saman í skál jógúrt, cumin, kóriander, cayenne, sítrónusafa, salt og pipar. Bætið gúrkunni saman við og hrærið saman. Bætið þá myntunni saman við og hrærið. Smakkið til. Setjið plast yfir skálina og látið standa í ísskáp þar til sósan skal borin fram. Best er að útbúa sósuna nokkrum tímum áður.
Meðlæti:
- Nan brauð frá Patak´s
Penslið brauðið með vatni og grillið í 1 mínútu á hvorri hlið.