Starbucks sítrónukaka

Starbucks sítrónukaka

Ég veit að ég ætti að vera snjöll og byrja vikuna á færslu með einhverri æðislegri hollustu en ég bara ræð ekki við mig. Ég get ekki hætt að hugsa um þessa fersku, mjúku sítrónuköku sem ég bakaði um daginn. Hún var himnesk og mig er búið að langa í hana á hverjum degi síðan. Ég set samt hendina á hjartað og lofa að hún var ekki í kvöldmat hjá okkur í kvöld. Það var fiskur og þið viljið ekki fá uppskriftina að honum. Ég lofa. Það sem þið eigið frekar eftir að vilja er uppskriftina að þessari dásamlegu köku því hún gerir lífið aðeins betra.

Starbucks sítrónukaka

Þegar ég er erlendis þá má ég ekki sjá Starbucks stað án þess að vilja rjúka þangað inn. Ég lít þó ekki við kaffinu heldur er það sítrónuformkakan þeirra sem hrópar á mig. Ég man eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði hana fyrst. Mér fannst hún svo stórkostlega góð. Síðan þá hef ég verið veik fyrir henni og næ mér í sneið við hvert tækifæri sem gefst.

Starbucks sítrónukaka

Ég rakst á uppskriftina að kökunni á netráfi mínu eitt kvöldið og hjartað tók auka slag þegar ég sá hana. Ég veit ekki af hverju ég hef ekki leitað að uppskriftinni áður en þarna bara var hún, Starbucks sítrónuformkakan.

Starbucks sítrónukaka

Ég þori ekki að lofa að þetta sé sama kakan en þessi var svo góð að mér er í raun alveg sama. Þessi heimabakaða Starbuckskaka uppfyllir alla mínar sítrónukökulanganir og ríflega það.

Starbucks sítrónukaka

 • 1 ½ bolli hveiti
 •  ½ tsk lyftiduft
 •  ½ tsk matarsódi
 •  ½ tsk salt
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur
 • 2 msk mjúkt smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk sítrónudropar
 • 1/3 bolli sítrónusafi
 •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
 • hýði af 1 sítrónu

Glassúr

 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk nýmjólk
 •  ½ tsk sítrónudropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum, sítrónudropum og sítrónusafa þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr:

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.

 

Sítrónuformkaka Nigellu Lawson

„How to eat“ og „How to be a domestic goddess“ voru fyrstu bækurnar sem ég pantaði mér á Netinu. Það eru 12 ár síðan og mér fannst þetta svo ótrúlega spennandi. „How to eat“ hafði komið út tveimur árum áður og þegar ég sá að „How to be a domestic goddess“  væri væntanleg þá beið ég eftir henni til að getað pantað þær saman. Ég hef skoðað þær svo oft og þær eru allar í litlum post-it miðum við uppskriftir sem ég ætla að prófa og búið að skrifa við þær uppskriftir sem ég hef gert. Post-it miðarnir eru þó fleiri og ég virðist lesa bækurnar oftar en ég elda og baka upp úr þeim.

Sítrónuformkökuna hef ég oft gert. Ég hef fyrir löngu skrifað við hana að hún væri mjög góð og mér finnst það ennþá. Það er gert ráð fyrir „self-raising flour“ í uppskriftinni og ég hef skrifað að það sé passlegt að bæta við hveitið rúmlega 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti. Ég hef fylgt því allar götur síðan og kakan heppnast alltaf þannig að það hlýtur að vera rétt.

 • 125 gr ósaltað smjör
 • 175 gr sykur
 • 2 stór egg
 • rifinn börkur af 1 sítrónu
 • 175 gr hveiti
 • rúmlega 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 4 msk mjólk

Hitið ofninn í 180°og smyrjið formkökumót vel. Hrærið saman smjöri og sykri. Bætið eggjum og rifnum sítrónuberki út í og hrærið vel saman. Bætið hveiti, lyftidufti og salti varlega saman við og leyfið að blandast vel saman. Að lokum er mjólkinni bætt út í og hrært þar til blandan er slétt. Setjið degið í smurt bökunarformið og bakið í ca 45 mínútur.

Sítrónusýróp

 • safi frá 1 1/2 sítrónu (ca 4 matskeiðar)
 • 100 gr flórsykur

Setjið sítrónusafann og flórsykurinn í lítinn pott og hitið varlega þar til sykurinn leysist upp.

Þegar kakan er tilbúin þá er hún tekin úr ofninum, stungið litlum götum með kökuprjóni ofan á hana alla og sítrónusýrópinu hellt yfir. Ég nota yfirleitt ekki allt sýrópið en það er auðvitað smekksatriði. Leyfið kökunni að kólna dálítið áður en hún er tekið úr forminu.