Marengsterta með sítrónukremi og bláberjum

Marengsterta hlýtur að vera það léttasta sem hægt er að baka. Það þarf einfaldlega að hræra eggjahvítur og sykur nógu lengi saman. Það má síðan alltaf bæta sítrónusafa eða kakói út í, skipta hvítum sykri út fyrir púðursykur eða af hverju ekki að strá möndluflögum yfir botninn áður en hann fer í ofninn.

Um síðustu helgi átti ég afgang af lemoncurd og nokkrar eggjahvítur og fannst kjörið að nýta það í marengs. Ég átti líka Rice crispies og úr varð einföld en dásamlega góð og sumarleg terta.

Marensbotnar

  • 4 eggjahvítur
  • 2 dl sykur
  • 3 dl rice crispsies

Hitið ofninn í 125° og klæðið tvö bökunarform með bökunarpappír í botninn og smyrjið hliðarnar. Hrærið eggjahvíturnar þar til þær verða hvítar og léttar. Bætið sykri út í og hrærið þar til blandan myndar stífa toppa. Hrærið Rice crispies varlega út í og skiptið deginu í formin. Bakið í 80 mínútur. Látið botnana kólna áður en sett er á þá.

Sítrónucurd

  • 1,5 dl. sykur
  • 2 stór egg
  • hýði af 2 stórum sítrónum og ca 3/4 dl. af ferskum sítrónusafa
  • 50 gr. smjör við stofuhita

Setjið sykur, egg, fínrifið sítrónuhýði og sítrónusafann í hitaþolna skál og setjið yfir sjóðandi vatn. Hrærið stöðugt með handþeytara (ekki rafmagns) svo að eggin hlaupi ekki í kekki. Blandan á að ná svipaðri þykkt og hollandaissósa. Þegar blandan hefur náð réttri þykkt er hún tekinn af hitanum og smjörinu hrært saman við. Þegar smjörið er bráðnað er sítrónucurdið sett í lokaða krukku, það geymist í rúma viku í ískáp.

  • 1/2 l rjómi, þeyttur.

Ég átti smá afgang af sítrónucurdi en ekki nógu mikið til að setja á heila tertu. Ég tók því af þeytta rjómanum og blandaði saman við sítronucurdið. Úr varð létt og sumarlegt sítrónukrem, æðislega gott.

Setjið annan marengsbotninn á kökudisk. Það er gott að setja smá af þeytta rjómanum undir botninn svo hann renni ekki til á kökudiskinum. Smyrjið þunnu lagi af sítrónukreminu á botninn og síðan þeytta rjómanum yfir sítrónukremið. Leggið seinni botninn ofan á, annað lag af sítrónukremi og þeytta rjómann efst. Leggið vel af berjum ofan á kökuna og njótið.