Amerískar pönnukökuvöfflur

Amerískar pönnukökuvöfflur

Mér þykir eitt það besta við helgarnar að getað byrjað daginn rólega yfir góðum morgunverði. Þar sem ég er yfirleitt fyrst á fætur hér á morgnana þá er ég oft búin að útbúa morgunverð og leggja á borð þegar Öggi og krakkarnir koma fram. Oft verða amerískar pönnukökur fyrir valinu því mér þykja þær svo æðislega góðar, helst með smjöri, hlynsírópi, beikoni og eggjahræru. Með þessu vil ég síðan hafa góðan djús með helling af klökum út í. Ég get varla hugsað mér betri byrjun á deginum.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Um síðustu helgi ákvað ég að prófa að setja pönnukökudeigið í vöfflujárnið. Ég notaði belgíska vöfflujárnið okkar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Það var ósköp þægilegt að þurfa ekki að standa yfir pönnunni, passa að vera með réttan hita á henni og að snúa pönnukökunum við á réttum tíma heldur að geta bara ausið deiginu í vöfflujárnið og lokað því. Næst ætla ég að prófa að setja deigið í venjulega vöfflujárnið, það getur varla verið síðra.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Ég ákvað að gefa pönnunum alveg frí þennan morguninn og steikti beikonið í ofninum, á 200° í ca 10 mínútur. Einfalt og þæginlegt.

Amerískar pönnukökuvöfflur (uppskriftin passar fyrir 8 belgískar vöfflur)

 • 270 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 4 msk sykur
 • 260 ml mjólk
 • 2 egg
 • 4 msk brætt smjör

Sigtið hveiti, lyftiduft, salt og sykur saman í stóra skál. Hrærið léttilega saman mjólk og eggi í annari skál og hrærið síðan bræddu smjöri saman við.

Hellið mjólkurblöndunni í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli þar til blandan er mjúk og nokkuð kekkjalaus. Látið deigið standa í nokkrar mínútur.

Hitið vöfflujárn og bakið vöfflur úr deiginu líkt og um venjulegt vöffludeig væri að ræða. Einnig má baka venjulegar amerískar pönnukökur á pönnu úr deiginu.

Berið fram með smjöri, hlynsírópi, eggjahræru og beikoni.

Dásamlegur morgunverður

Það virðist engu máli skipta hvenær ég fer að sofa, ég er alltaf fyrst á fætur á morgnana. Mér finnst það ósköp notalegt og oftar en ekki læðist ég fram, kveiki lágt á útvarpinu, fletti blöðunum og skoða uppskriftir. Á laugardagsmorgnum geri ég yfirleitt vikumatseðilinn en í sumarfríinu hefur það alveg dottið úr rútínu. Nú er ég alltaf að plana næstu máltíð, ligg yfir uppskriftum og hleyp í búðina þess á milli.

Í morgun ákvað ég að koma fjölskyldunni á óvart og vekja þau með alvöru morgunmat. Sólin skein og ég stóðst ekki mátið að dúka borðið á pallinum og hafa morgunmatinn þar. Ég bakaði amerískar pönnukökur, steikti beikon og gerði breska morgunverðarpönnu sem ég sá í Jamie Oliver blaðinu mínu. Ég held að það sé ekki hægt að byrja daginn betur en með fjölskyldunni í sólinni yfir svona morgunverði. Krökkunum leið eins og við værum í útlöndum og ég skil það vel. Það var steikjandi hiti á pallinum og við sátum lengi yfir matnum og spjölluðum. Þetta verður endurtekið fljótlega.

Kartöflu og chorizo morgunverðarpanna að hætti Jamie Oliver

 • ólívuolía
 • 2 stórir laukar, skornir í grófa bita
 • 2 hvítlauksrif, hökkuð
 • 240 gr chorizo pylsa, hökkuð
 • 4-6 soðnar kartöflur, skornar í grófa bita
 • 4 egg
 • fersk steinselja

Hitið ofninn i 180°. Setjið ólivuolíu í ofnþolna pönnu og steikið laukinn og hvítlaukinn við vægan hita þar til laukurinn verður mjúkur. Bætið chorizo pylsunni á pönnunna og steikið áfram í 2-3 mínútur eða þar til hún byrjar að fá fallegan lit. Bætið soðnu kartöflunum á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur. Brjótið eggin yfir og stingið pönnunni í ofninn og bakið í 8 mínútur eða þar til eggjahvíturnar eru stífar og eggjarauðurnar fljótandi. Myljið pipar og salt yfir ásamt ferskri steinselju og berið fram.

Amerískar pönnukökur

 • 3 bollar hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • 1 egg
 • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist.