Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Ég hef lítið stússast í eldhúsinu þessa vikuna þar sem það hefur verið ótrúlegt útstáelsi á mér á kvöldin. Á meðan ég hef setið með vinkonum mínum yfir dýrindis kræsingum hef ég lítið skipt mér af því sem fjölskyldan hefur borðað hér heima. Í gær tók ég þó aftur yfir eldhúsinu og eldaði mjög einfaldan en góðan pastarétt sem tók ekki nokkra stund að gera.

Þessi réttur uppfyllti allar mínar kröfur í gær, það tók enga stund að útbúa hann og öllum þótti hann góður. Krakkarnir fengu sér aftur á diskinn og sumir meira að segja fjórum sinnum. Þau voru öll á einu máli um að rétturinn yrði að fara á bloggið og ég tók undir með þeim. Svona uppskriftir getur verið svo gott að eiga í handraðanum, sérstaklega þegar jólastressið er handan við hornið og enginn tími til að standa við eldavélina.

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

 • 2 msk ólívuolía
 • 6 stórir plómutómatar
 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 grænmetisteningur (mér þykja þeir bestir frá Knorr)
 • 2 tsk hunang
 • 1 tsk balsamik edik
 • svartur pipar úr kvörn
 • 1½ dl rjómi
 • 2-3 dl vatn sem spaghettíið var soðið í
 • salt

Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið tómatana í litla bita og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið tómata, lauk og hvítlauk. Bætið grænmetisteningi, hunangi og balsamik ediki á pönnuna og kryddið með pipar. Látið sjóða saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Lækkið hitann, bætið rjóma saman við og látið sjóða saman um stund. Þegar spaghettíið er tilbúið er 2-3 dl af spaghettivatninu bætt á pönnuna og rétt látið sjóða saman. Að lokum er spaghettíinu bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman.

Milljón dollara spaghetti

Ég get ekki á mér setið og hreinlega verð að þakka allar heimsóknirnar sem matarbloggið mitt hefur fengið. Síðan ég byrjaði að blogga í sumar hafa þær aukist jafnt og þétt og í síðasta mánuði voru heimsóknirnar rétt um 95.000! Mér þykir svo ofboðslega vænt um að svona margir skuli hafa áhuga á að fylgjast með litla blogginu mínu. Öll kommentin, like-in á Facebooksíðunni og tölvupóstarnir sem ég hef fengið, ég á ekki orð til að lýsa því hvað þetta gleður mig mikið. Kveðjurnar hlýja mér út veturinn og vel það. Þúsund þakkir og knús til ykkar allra.

Ég eldaði um daginn rétt sem allir elska, milljón dollara spaghetti. Uppskriftin er amerísk og er góð eftir því. Ég veit ekki hvaðan rétturinn fékk þetta stórfenglega nafn en hann er bæði fjölskylduvænn og góður.

Milljón dollara spaghetti

 • 450 gr nautahakk (eða 1 bakki)
 • 1 dós pastasósa
 • 225 gr rjómaostur
 • 1/4 bolli sýrður rjómi
 • 225 gr kotasæla
 • 110 gr smjör
 • 225 gr spaghetti
 • rifinn cheddar ostur

Hitið ofninn í 180°. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu. Hrærið saman rjómaosti, sýrðum rjóma og kotasælu þar til það hefur blandast mjög vel. Steikið nautahakkið á pönnu og kryddið eftir smekk. Hellið vökvanum frá og brúnið hakkið vel. Hellið pastasósu yfir og látið sjóða við vægan hita í smá stund.

Leggið smjörklípur í botninn á eldföstu móti (ef smjörið er kallt er gott að nota ostaskera í verkið). Setjið helminginn af spaghettíinu í botninn á eldfasta mótinu. Hellið rjómaostablöndunni yfir spaghettíið og dreifið vel úr henni. Setjið afganginn af spaghettíinu yfir rjómaostablönduna, leggið nokkrar smjörklípur yfir og endið á að hella hakksósunni yfir spaghettíið.  Dreifið vel úr hakksósunni og bakið í 30 mínútur. Eftir 30 mínútur er rétturinn tekinn úr ofninum og rifnum cheddar osti dreift yfir. Setjið réttinn aftur í ofninn í 15 mínútur.