Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Það eru ár og aldir síðan ég vakti krakkana með amerískum pönnukökum, beikoni og eggjahræru en í páskafríinu lét ég verða af því. Ég gæti vel byrjað alla daga á svona veislu, en þá þyrfti ég líka að geta lagt mig aftur alla daga því ég borða alltaf yfir mig. Ég set bæði smjör og hlynsýróp á pönnukökuna mína og fæ mér eggjahræru og beikon með. Síðan vil ég drekka góðan appelsínusafa eða heilsusafa með miklum klökum. Krakkarnir fá sér ýmist hlynsýróp, eggjahræru og beikon eða nutella og jarðaber á sínar pönnukökur. Og ef það verður afgangur af pönnukökunum, þá set ég þær í plast og krakkarnir stinga þeim í brauðristina þegar líður á daginn og smyrja með smjöri og osti.

Amerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræranAmerískar pönnukökur og besta eggjahræran

Amerískar pönnukökur

 • 3 bollar hveiti
 • 1 bolli sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • 1 egg
 • mjólk eftir þörfum (ca 2 bollar)

Hrærið öllu saman þar til deigið er slétt og kekkjalaust. Steikið á pönnu í bræddu smjöri við vægan hita og snúið við þegar loftbólur myndast. Borið fram með smjöri, sýrópi, beikoni og öllu því sem hugurinn girnist. Ef svo ólíklega vill til að það verði pönnukökur í afgang þá er gott að hita þær upp í brauðristinni.

Eggjahræra

 • 1 msk rjómi á móti 1 eggi

Hrærið saman eggjum og rjóma og steikið við miðlungsháan hita (passið að hafa hann ekki of háan). Hrærið stöðugt í eggjahrærunni á meðan hún er að steikjast. Takið pönnuna af hitanum rétt áður en eggjahræran er tilbúin og klárið að steikja hana á bara eftirhitanum í pönnunni. Eggjahræran á alls ekki að vera þurr og því gott að klára eldamennskuna á þann máta.

Ofnsteikt beikon

Raðið beikonsneiðum á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og setjið í 200° heitan ofn í um 10 mínútur.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Amerískar pönnukökuvöfflur

Mér þykir eitt það besta við helgarnar að getað byrjað daginn rólega yfir góðum morgunverði. Þar sem ég er yfirleitt fyrst á fætur hér á morgnana þá er ég oft búin að útbúa morgunverð og leggja á borð þegar Öggi og krakkarnir koma fram. Oft verða amerískar pönnukökur fyrir valinu því mér þykja þær svo æðislega góðar, helst með smjöri, hlynsírópi, beikoni og eggjahræru. Með þessu vil ég síðan hafa góðan djús með helling af klökum út í. Ég get varla hugsað mér betri byrjun á deginum.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Um síðustu helgi ákvað ég að prófa að setja pönnukökudeigið í vöfflujárnið. Ég notaði belgíska vöfflujárnið okkar og varð ekki fyrir vonbrigðum. Það var ósköp þægilegt að þurfa ekki að standa yfir pönnunni, passa að vera með réttan hita á henni og að snúa pönnukökunum við á réttum tíma heldur að geta bara ausið deiginu í vöfflujárnið og lokað því. Næst ætla ég að prófa að setja deigið í venjulega vöfflujárnið, það getur varla verið síðra.

Amerískar pönnukökuvöfflur

Ég ákvað að gefa pönnunum alveg frí þennan morguninn og steikti beikonið í ofninum, á 200° í ca 10 mínútur. Einfalt og þæginlegt.

Amerískar pönnukökuvöfflur (uppskriftin passar fyrir 8 belgískar vöfflur)

 • 270 g hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1/2 tsk salt
 • 4 msk sykur
 • 260 ml mjólk
 • 2 egg
 • 4 msk brætt smjör

Sigtið hveiti, lyftiduft, salt og sykur saman í stóra skál. Hrærið léttilega saman mjólk og eggi í annari skál og hrærið síðan bræddu smjöri saman við.

Hellið mjólkurblöndunni í hveitiblönduna og hrærið saman með gaffli þar til blandan er mjúk og nokkuð kekkjalaus. Látið deigið standa í nokkrar mínútur.

Hitið vöfflujárn og bakið vöfflur úr deiginu líkt og um venjulegt vöffludeig væri að ræða. Einnig má baka venjulegar amerískar pönnukökur á pönnu úr deiginu.

Berið fram með smjöri, hlynsírópi, eggjahræru og beikoni.