Blómkálssúpa

Ég var ekkert að flækja hlutina í kvöld og eldaði blómkálssúpu í matinn. Okkur finnst hún alltaf jafn góður og notalegur matur. Blómkálssúpuna elda ég oft enda einföld, fljótleg og að mínu mati mjög góður hversdagsmatur. Það þarf bara að eiga blómkálshaus og smá rjómaslettu til að geta töfrað fram góðan kvöldverð á svipstundu.  Ég á alltaf baguette brauð frá Délifrance í frystinum sem ég kaupi frosið í matvörubúðinni og þykir þægilegt að geta gripið í og hitað til að hafa með súpunni.

Ég geri alltaf súpur frá grunni og get ekki ímyndað mér að pakkasúpur séu góðar. Það er án nokkurns vafa hægt að finna fínni uppskriftir að blómkálssúpum en okkur þykir þessi svo góð og hún klikkar aldrei.  Í kvöld ákvað ég að skrifa niður hvernig ég geri súpuna ef einhvern langar að prófa. Uppskriftin er ekki heilög og mér dytti ekki í hug að fara út í búð eftir öðru hráefni en blómkálinu. Ef ég á ekki rjóma þá nota ég meiri mjólk, ef ég á ekki grænmetistening þá nota ég bara kjúklingatening og öfugt. Það virðist ekki skipta neinu máli, súpan verður alltaf góð.

Blómkálssúpa

  • stór blómkálshaus
  • 50 gr smjör
  • 1 dl hveiti
  • 6-7 dl soð
  • 2 dl rjómi
  • 3 dl mjólk
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 kjúklingateningur
  • hvítur pipar
  • salt

Skerið blómkálshausinn niður og setjið í pott. Hellið vatni þannig að rétt fljóti yfir og sjóðið þar til blómkálið verður mjúkt.

Í öðrum potti er smjörið brætt og hveitinu hrært saman við. Bætið blómkálssoðinu smám saman í pottinn og hrærið vel á milli. Bætið rjómanum, mjólkinni og teningunum út í. Leyfið að sjóða saman um stund og smakkið til með hvítum pipar og salti. Ef súpan er bragðlítil þá er bætt við meiri krafti. Bætið að lokum blómkálinu í pottinn og leyfið að sjóða saman um stund áður en súpan er borin fram.

Ég leyfi töfrasprotanum stundum að mauka blómkálið áður en ég ber súpuna fram og hef alltaf brauð með súpunni.