Ég sýndi í stories á Instagram í síðustu viku hvernig þeytt brúnað smjör er gert (svo einfalt!) en það er auðvitað best að setja aðferðina líka hingað inn svo hægt sé að fletta henni upp. Mér þykir þeytt smjör svo brjálæðislega gott og þarf alltaf að passa að borða mig ekki sadda af brauði með þeyttu smjöri þegar ég fer út að borða og það kemur brauð með góðu smjöri á borðið fyrir matinn.
Það er ofureinfalt að útbúa þetta góða smjör til og það geymist vel í loftþéttri krukku við stofuhita. Smjörið er einfaldlega gert þannig að saltlausu smjöri (þetta í grænu umbúðunum) er skipt til helminga. Annar helmingurinn er bræddur í þykkbotna potti yfir miðlungshita þar til það byrjar að brúnast. Þegar smjörið er orðið fallega gyllt, kominn góður hnetuilmur af því, brúnir flekkir farnir að myndast á yfirborðinu og froða komin yfir allt þá er slökkt á hellunni og potturinn tekinn af. Látið smjörið kólna við stofuhita, helst yfir nótt. Geymið hinn helming smjörsins líka við stofuhita. Þegar brúnaða smjörið hefur kólnað (það mun hafa fljótandi áferð þrátt fyrir að hafa náð stofuhita) eru bæði smjörin sett saman í hrærivél og þeytt í um 10 mínútur. Þá er smjörið orðið loftmikið, ljóst og fallegt. Saltið með góðu sjávarsalti eða berið saltið fram með smjörinu þannig að hver og einn getur stjórnað saltmagninu sjálfur.
Smjörið er æðislegt með nýbökuðu brauði, eins og t.d. New York Times brauðinu góða.