Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti

Þegar líða fer að helginni berst talið oft að helgarmatnum og hugmyndir fara að fljúga á milli í vinahópnum. Í slíkum pælingum um daginn minntist vinkona mín úr vinnunni á rétt sem maðurinn hennar gerir sem henni þykir svo góður. Ég varð auðvitað ekki róleg fyrr en hún var búin að fá hann til að senda sér uppskriftina. Hann átti eflaust ekki von á að hún myndi enda hér (ég fékk samt leyfi til að birta hana – takk Kalli!) en ég get ekki annað, bæði svo fleiri geta notið og svo ég geti fundið hana aftur.

Þessi kjúklingaréttur er í einu orði sagt æðislegur. Krakkarnir höfðu öll orð á því hvað hann væri svakalega góður og meira að segja Gunnar, sem borðar helst ekki kjúkling, sagðist furða sig á því hvað þetta væri æðislega gott því hann borði nánast ekkert af því sem er í réttinum.

Við vorum 5 í mat og það varð smá afgangur eftir sem Jakob borðaði í morgunmat daginn eftir. Ég bar réttinn fram með brauði, annars hefði hann eflaust klárast upp til agna.

Kjúklingur í satay með spínati og fetaosti (uppskrift fyrir 5)

 • 4 kjúklingabringur
 • 2 dósir sataysósa (mér þykir langbest frá Thai Choice)
 • 1 rauðlaukur
 • 1 dós fetaostur
 • 150-200 g spínat
 • 3 dl kús kús
 • 3 dl vatn

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í smjöri. Hellið sataysósunni yfir og látið sjóða við vægan hita í 20-30 mínútur.

Hitið vatn að suðu (mér þykir gott að setja 1 kjúklingatening í vatnið), hrærið kús kús út í, setjið lok á pottinn og takið af hitanum. Látið standa í 5 mínútur.

Setjið kús kús, niðurskorinn rauðlauk, fetaost og spínat út í kjúklinginn og berið fram.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ó, hvað það er alltaf notalegt að fá frídag í miðri viku. Að geta vakað lengur, sofið út og fengið langan helgarmorgunverð án þess að það sé helgi. Frábær hversdagslúxus.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Í dag er síðasti vetrardagur og því ákváðum við að vera með góðan kvöldverð. Eftir miklar vangaveltur féll valið á tælenskan. Við erum öll hrifin af tælenskum mat og þar sem ég átti kjúklingabringur lá beinast við að gera kjúklingarétt. Svo var jú mikilvæg að rétturinn yrði stórgóður. Það er jú síðasti vetrardagur og allt.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Ég fékk þennan kvöldverð á heilann. Það var eins og við værum að fá kóngafólk í heimsókn og ég yrði að standa mig. Ég hugsaði um hann í allan dag og um leið og ég kom heim úr vinnunni tók ég fram það sem mig langaði að setja í réttinn og byrjaði að undirbúa. Sumt var ég ekki viss um en ákvað þó að láta vaða og á pönnuna fóru meðal annars hvítlaukur og lemon grass sem reyndust fara stórvel með græna karrýinu.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Úr varð besti tælenski réttur sem ég hef nokkurn tímann borið á borð. Mér þótti hann dásamlegur. Okkur þótti það öllum. Rétturinn var svo bragðgóður og yfir hann settum við hakkaðar salthnetur, vorlauk og ferskt kóriander sem fullkomnaði allt.  Okkur tókst að kveðja veturinn með stæl og á morgun ætlum við að bjóða sumarið velkomið með grillveislu. Vertu ávalt velkomið sumar, ég vona að þú dveljir sem lengst hjá okkur.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2 msk rapsolía
 • 2 -2,5 msk green curry paste frá Thai Choice
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 1 tsk lemon grass frá Thai Choice
 • 1 tsk hrásykur
 • 2 msk fish sauce
 • 1 dós kókosmjólk (400 ml.) frá Thai Choice
 • 1 sæt kartafla, skorin í teninga
 • salthnetur, grófsaxaðar
 • vorlaukur, skorin í sneiðar
 • ferskt kóriander
 • hrísgrjón
 • lime

Hitið olíu á pönnu og setjið hvítlauk og karrýmauk saman við. Steikið við miðlungsháan hita í 1 mínútu. Bætið kjúklingnum á pönnuna og steikið áfram í aðra mínútu. Setjið fiskisósu, lemon grass og hrásykur á pönnuna og látið malla í 3-4 mínútur. Bætið sætum kartöflum á pönnuna og hellið kókosmjólk yfir. Látið sjóða þar til kartöflurnar eru soðnar.

Berið fram með hrísgrjónum, limebátum, salthnetum, vorlauk og fersku kóriander.

Tælenskur kjúklingur í grænu karrýi