Pasta carbonara

Pasta carbonara

Ég ætla að eyða kvöldinu í saumaklúbbi með vinkonum mínum en áður en ég ríf mig af stað ætla ég að gefa ykkur æðislega uppskrift að pasta carbonara. Ég hef ekki tölu á hversu margar uppskriftir af pasta carbonara ég hef prófað og í síðustu viku prófaði ég enn eina uppskriftina. Í þetta sinn held ég að ég hafi hitti á þá réttu og að leit mín að hinni fullkomnu carbonara uppskrift sé þar með lokið.

Pasta carbonara

Það er ekki hægt annað en að elska þennan rétt. Hann er svo æðislega góður og það tekur enga stund að útbúa hann sem getur hentað vel í amstri dagsins. Þar sem við erum svo sannarlega ekki á kolvetnasnauðu fæði þá fengum við okkur hvítlauksbrauð með. Svo ólýsanlega gott.

Pasta carbonara

Pasta Carbonara (uppskrift frá The pioneer woman)

  • 350 g pasta (hvaða tegund sem er, ég var með spaghetti)
  • 300 g beikon, skorið smátt
  • 1/2 laukur, hakkaður
  • 2 hvítlauksrif, hökkuð
  • 3 egg
  • 3/4 bolli fínrifinn Parmesan
  • 3/4 bolli rjómi
  • Salt og vel af svörtum pipar

Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu.

Á meðan pastað sýður er beikonið steikt þar til það byrjar að verða stökkt. Takið beikonið af pönnunni og setjið það á eldhúspappír. Hellið fitunni af pönnunni en skolið hana ekki. Setjið pönnuna aftur á helluna, lækkið hitann í miðlungslágann (ég nota stillingu 3 af 9) og steikið lauk og hvítlauk þar til mjúkt og komið með gylltan lit. Leggið til hliðar.

Hrærið saman eggjum, fínrifnum parmesan, rjóma, salti og pipar í skál og leggið til hliðar.

Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 1-2 dl af pastavatninu) og pastað sett aftur í pottinn. Hellið parmesaneggjablöndunni hægt út í og hrærið stöðugt í pastanu á meðan. Sósan á að hjúpa pastað. Hrærið smá af pastavatninu saman við.  Bætið beikoninu og lauknum saman við og hrærið öllu saman. Berið fram með ferskum parmesan og meira af pipar.

Pasta carbonara

Hvítlauksbrauðið var einfalt; Heimilisbrauð steikt upp úr miklu smjöri og kryddað með hvítlaukssalti.

Pastagratin

Ég er ósköp fegin því að sjá fyrir endan á „eldað úr frystinum“ vikunni og er farin að hlakka til að skipuleggja matarinnkaupin fyrir næstu viku. Í kvöld tók ég síðasta matinn úr frystinum, nautahakksbakka, og eftir eru þá bara ís og frosnir ávextir í skyrdrykki fyrir krakkana.

Þeir allra gleggstu gætu munað eftir að ég notaði hálfan beikonsmurost í skinku- og spergilkálsbökuna á þriðjudaginn. Núna notaði ég seinni helminginn í ostasósu til að setja yfir pastagratin. Rétturinn var dásamlega góður og mjög fjölskylduvænn.

Pastagratin

  • soðið pasta
  • kjötsósa (steikið 1 bakka af nautahakki, kryddið og setjið niðursoðna tómata eða pastasósu yfir og látið sjóða saman)
  • kirsuberjatómatar
  • vorlaukur
  • mozzarella ostur

Ostasósa

  • 4 dl rjómi
  • 100 g beikonsmurostur
  • 1-2 dl rifinn ostur
  • salt og pipar

Hitið ofninn í 220°. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkningu. Steikið nautahakk og kryddið eftir smekk. Setjið góða pastasósu eða niðursoðna tómata yfir og látið sjóða saman.

Setjið rjóma í pott ásamt beikonsmurostinum og látið suðuna koma upp. Bætið rifnum osti í pottinn og látið bráðna saman við. Saltið og piprið og takið af hitanum.

Setjið pastað í eldfast mót og hellið kjötsósunni yfir. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og setjið yfir kjötsósuna ásamt niðurskornum vorlauki. Hellið ostasósu yfir og endið á að strá rifnum mozzarella yfir.

Setjið í ofn í um 20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit.

Pylsupasta með piparostasósu

Jakob er búinn að biðja mig um að elda þetta pylsupasta í nokkurn tíma og ég var búin að lofa honum að elda það í vikunni. Hann er svo hrifinn af pylsuréttum og ef hann fengi að ráða þá værum við með þá í hverri viku. Ég á reyndar mjög auðvelt með að láta það eftir honum því mér þykja svona réttir líka alveg æðislega góðir.

Ég verð að viðurkenna að ég hálf skammast mín fyrir að setja þessa uppskrift inn, ef uppskrift má kalla. Hún er svo ofureinföld og eiginlega bara gefin hér sem hugmynd af kvöldmat. Þá daga sem börnin eru á löngum æfingum og við erum að koma seint heim þá þykir mér mjög gott að geta gripið í svona einfaldar uppskriftir og verið með matinn á borðinu korteri síðar.

Pylsupasta með piparostasósu

  • 10 pylsur (ég nota SS-pylsur)
  • smjör
  • 1 piparostur
  • ½ líter matreiðslurjómi
  • ½ grænmetisteningur
  • smá cayanne pipar

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka.

Skerið pylsurnar í bita og steikið á pönnu upp úr smjörinu. Þegar pylsurnar eru komnar með fallega húð er matreiðslurjómanum hellt yfir og smátt skornum piparostinum og grænmetisteningnum bætt í. Látið sjóða þar til osturinn hefur bráðnað og smakkið til með cayanne pipar.

Pestó-pasta

Ég held að ég hafi útbúið þetta pestópasta oftar en eðlilegt getur talist. Það er í algjöru uppáhaldi hjá Ögga og nánast undantekningalaust það sem hann stingur upp á að hafa í matinn ef ég spyr hann.

Yfirleitt geri ég mjög stóran skammt því þetta er ekki verra daginn eftir. Þá þykir mér gott að bæta aðeins meira af pestói og fetaosti saman við, setja réttinn síðan í eldfast mót, salta og pipra vel og rífa parmesan ost yfir. Ég set hann síðan í ofninn þar til hann er heitur í gegn og finnst rétturinn verða mjög góður við það.

Pestó-pastað er sniðugt að gera fyrir veislur eða útilegur og bera þá fram kallt. Mér finnst þetta alltaf gott og ég held að Öggi gæti lifað á þessu.

Pestó-pasta

  • pasta
  • gott grænt pestó
  • rauðlaukur, skorin fínt niður
  • rauð paprika, skorin í bita
  • tómatar (ég nota oftast kirsuberjatómata eða plómutómata)
  • fetaostur (ég nota fetaost í kryddolíu)
  • ferskur parmesan
  • gott jurtasalt eða venjulegt salt
  • pipar

Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er tilbúið er vatninu hellt af og pastað sett aftur í pottinn. Hrærið pestói saman við ásamt fetaostinum (mér þykir gott að stappa hluta af ostinum með smá af olíunni), rauðlauknum, paprikunni og tómötunum. Piprið og saltið og rífið ferskan parmesan ost yfir. Berið fram með hvítlauksbrauði.