Súkkulaðimús

Súkkulaðimús

Fyrir helgi lét ég verða af því að kaupa mér nýjar eftirréttaskálar. Fyrir valinu urðu Ultima Thule skálarnar frá iittala, ein stór og átta litlar. Mér þykja þær æðislegar! Passlega stórar og fallegar á borði.

Súkkulaðimús

Þar sem spánýjar skálar voru komnar í hús þótti mér tilvalið að bjóða upp á eftirrétt í gærkvöldi. Einfaldasta, fljótlegasta og besta eftirréttinn að mati krakkanna, súkkulaðimús. Með ferskum berjum og jafnvel smá léttþeyttum rjóma er erfitt að standast hana. Mums!

Súkkulaðimús

Súkkulaðimús (fyrir 4)

  • 100 g súkkulaði (gjarnan 50 g rjómasúkkulaði og 50 g suðusúkkulaði)
  • 2 eggjarauður
  • 2,5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í 4 skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.