Fyllt rúnstykki

Fyllt rúnstykkiÉg datt niður á uppskrift af þessum fylltu rúnstykkjum fyrir nokkrum árum og er alltaf jafn ánægð með þau, hvort sem um hádegisverð eða léttan kvöldverð sé að ræða. Uppskriftin er svo sem hvorki merkileg né heilög en sem grunn að fyllingu er passlegt að miða við 1 egg + 1 dl af rjóma fyrir tvö rúnstykki. Síðan má krydda eftir smekk og fylla með osti og því sem hugurinn girnist. Beikon, skinka, pepperoni, sveppir, paprika, aspas… í raun bara það sem er til á heimilinu, þetta klikkar aldrei!

Fyllt rúnstykki

Aðferðin er einföld. Skerið lokið af rúnstykkinu, takið innan úr þeim þannig að það myndist góð hola og fyllið hana með osti (mér þykir gott að nota bragðmikinn ost eins og t.d. sterkan gouda) og skinku (eða öðru áleggi). Hrærið saman eggi, rjóma og kryddið með salti og pipar (hér notaði ég líka ítalskt salatkrydd sem ég átti en t.d. töfrakrydd, krydd lífsins eða hvítlaukskrydd gæti verið gott). Hellið eggjahrærunni yfir fyllinguna í rúnstykkinu (hún passar í tvö rúnstykki) og setjið smá rifinn ost yfir. Setjið lokið á rúnstykkið og pakkið því inn í álpappír. Bakið við 200° í um 30 mínútur. Berið fram heitt með góðu salati.

Fyllt rúnstykki

Brauð með ítalskri fyllingu

Ég var búin að ákveða að elda allt annan mat í kvöld, en þegar ég sá þennan brauðhleif í búðinni skipti ég snarlega um skoðun. Mig langaði bara í þetta brauð með ítalskri fyllingu. Uppskriftina fann ég fyrir löngu á sænsku matarbloggi og hef eldað hana reglulega síðan. Okkur þykir þetta öllum svo gott og krakkarnir borða hann með bestu lyst þó þau þykjast ekki borða ólívur. Þetta er einfaldur réttur sem mér finnst bestur með góðu salati og ísköldu sódavatni.

Brauð með ítalskri fyllingu

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 500 gr nautahakk
  • smjör til að steikja í
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 msk þurrkuð basilika eða 1 box fersk basilika
  • 1-2 tsk salt
  • pipar
  • smá sykur
  • 1 dl blandaðar steinlausar ólívur
  • 125 gr ferskur mozzarella
  • 150 gr rifinn ostur
  • 1 brauðhleifur

Hitið ofninn í 175°. Hakkið lauk, hvítlauk og sólþurrkaða tómata. Steikið nautahakkið með laukunum og bætið síðan niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basiliku á pönnuna. Leyfið þessu að sjóða í 10 mínútur og bragðbætið með salti, pipar og smá sykri. Takið af hitanum og leyfið að kólna aðeins.

Skerið lok af brauðinu og takið úr því þannig að eftir standi ca 2 cm kantur um brauðið. Skerið ólívurnar smátt og mozzarella ostinn í bita. Blandið rifnum osti, ólívunum og mozzarella ostinum í kjötblönduna og fyllið brauðið með blöndunni. Leggið lokið á brauðið og pakkið því inn í álpappír. Setjið í ofninn í ca 30 mínútur eða þar til brauðið er heitt í gegn.

Berið fram heitt með góðu salati.