Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Vikan hefur verið annasöm og lítill tími gefist til að blogga. Mér þykir það svolítið leiðinlegt því ég hef verið verið svo spennt fyrir að gefa uppskrift af þessum fylltu kjúklingabringum sem slógu í gegn hér um síðustu helgi.

Ég hef aldrei kynnst neinum sem eru jafn hrifnir af pestói og Öggi og Jakob eru. Þeim þykir allt með pestói gott og þegar ég bauð upp á þessar pestófylltu kjúklingabringur um síðustu helgi hrósuðu þeir matseldinni við hvern bita. Þetta sló einfaldlega í gegn. Ég mæli með að þið prófið. Uppskriftin miðast við eina kjúklingabringu og ber að stækka eftir fjölda matargesta.

Þetta er ekki flókið. Byrjið á að setja kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þið getið. Ekki hafa áhyggjur af útlitinu, það fer í felur undir lokin.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Smyrjið pestóhrærunni yfir bringuna, en skiljið um sentimeter eftir meðfram könntunum. Rúllið bringunni upp og festið hana saman með tannstönglum. Aftur, ekki hafa áhyggjur af útlitinu. Hún verður fallegri.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Dýfið kjúklingabringunni í hrært egg og veltið henni síðan upp úr parmesanhveitiblöndu. Setjið í eldfast mót eða ofnskúffu.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Bakið í ofni og þessi dásemd mun taka á móti ykkur.

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur

Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur – uppskriftin miðast við 1 kjúklingabringu

  • 1 stór kjúklingabringa
  • 1 msk grænt pestó
  • 1 msk sýrður rjómi
  • 1 msk rifinn mozzarella ostur

Hrærið saman pestó, sýrðum rjóma og mozzarella osti. Setjið kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þú nærð henni.  Takið kjúklingabringuna úr plastpokanum og smyrjið pestóhrærunni yfir hana en látið hana þó ekki fara alveg að köntunum. Rúllið kjúklingabringunni upp og festið hana saman með tannstönglum.

  • 1 egg
  • 1½ msk fínrifinn parmesan
  • 1½ msk  hveiti (eða möndlumjöl ef þið eigið það)
  • svartur pipar

Hrærið eggið og setjið í grunna skál. Blandið saman parmesan og hveiti í annari skál og kryddið til með svörtum pipar. Dýfið kjúklingabringunni í eggjahræruna og síðan í parmesanhveitiblönduna. Passið að kjúklingurinn sé vel hjúpaður. Setjið kjúklinginn í smurt eldfast mót og bakið við 190° í 30-35 mínútur.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

  • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
  • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
  • ferskmalaður pipar
  • 1 lítill púrrulaukur
  • 1 msk + 1 msk olía
  • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Fylltar kjúklingabringur með pestó-rjómaostafyllingu og beikoni

Það hafa engin þrekvirki verið unnin á þessu heimili í dag heldur var sofið til hádegis og aldrei farið almennilega á fætur. Við vorum ánægð með að endurheimta nágrannana frá Vestmannaeyjum og fengum þau yfir í tertuafganga og spjall.  Í kvöldmat eldaði ég síðan þennan kjúklingarétt sem okkur þykir alltaf jafn góður.

  • 5 kjúklingabringur
  • 1 fetakubbur
  • 1 pakki Philadelphilaostur með jurtum og hvítlauk
  • ca 1 msk pestó (ég nota grænt)
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 dós léttur sýrður rjómi
  • sítróna
  • kartöflur, sætar kartöflur, gulrætur eða það rótargrænmeti sem þú kýst

Skerið kartöflurnar og rótargrænmetið í báta eða sneiðar  og setjið í eldfast mót. Hellið smá ólivuolíu yfir og kryddið með salti og pipar og þeim kryddum sem þér þykir góð. Ég notaði í kvöld gott jurtasalt með salvíu, rósmarín og timjan. Setjið í 200° heitan ofninn.

Myljið hálfan fetakubbinn í skál og blandið ca 3/4 af Philadelphiaostinum saman við. Hrærið ca 1 msk af pestói saman við og jafnvel smá pipar (það þarf ekki salt því það er næg selta í fetaostinum).

Hamrið kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar og leggið gott lag af fetaostahrærunni ofan á hverja bringu. Leggið beikonsneiðarnar á fat og rúllið utan um kjúklingabringurnar þar til kjúklingurinn er þakin af beikoni. Steikið kjúklingabringurnar í smjöri eða ólivuolíu þar til þær hafa fengið fallegan lit. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og setjið það sem eftir var af fetaosthrærunni í kringum kjúklinginn í forminu. Það er líka alveg hægt að sleppa því að steikja kjúklingabringurnar á pönnunni og setja þær bara beint í ofninn. Færið kartöflurnar og rótargrænmetið neðst í ofninn og setjið kjúklingabringurnar í miðjan ofninn í ca 20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er gegnum steiktur.

Blandið restina af fetaostinum með heilli dós af létt sýrðum rjóma, pressið hvítlauksrif út í, kreistið smá sítrónusafa og kryddið með góðu jurtasalti. Mixið saman með töfrasprota.

Berið fram með góðu salati.

Endið máltíðina í sjónvarpssófanum með smá nammi, það gerðum við alla vega.