Vikan hefur verið annasöm og lítill tími gefist til að blogga. Mér þykir það svolítið leiðinlegt því ég hef verið verið svo spennt fyrir að gefa uppskrift af þessum fylltu kjúklingabringum sem slógu í gegn hér um síðustu helgi.
Ég hef aldrei kynnst neinum sem eru jafn hrifnir af pestói og Öggi og Jakob eru. Þeim þykir allt með pestói gott og þegar ég bauð upp á þessar pestófylltu kjúklingabringur um síðustu helgi hrósuðu þeir matseldinni við hvern bita. Þetta sló einfaldlega í gegn. Ég mæli með að þið prófið. Uppskriftin miðast við eina kjúklingabringu og ber að stækka eftir fjölda matargesta.
Þetta er ekki flókið. Byrjið á að setja kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þið getið. Ekki hafa áhyggjur af útlitinu, það fer í felur undir lokin.
Smyrjið pestóhrærunni yfir bringuna, en skiljið um sentimeter eftir meðfram könntunum. Rúllið bringunni upp og festið hana saman með tannstönglum. Aftur, ekki hafa áhyggjur af útlitinu. Hún verður fallegri.
Dýfið kjúklingabringunni í hrært egg og veltið henni síðan upp úr parmesanhveitiblöndu. Setjið í eldfast mót eða ofnskúffu.
Bakið í ofni og þessi dásemd mun taka á móti ykkur.
Pestó- og ostafylltar kjúklingabringur – uppskriftin miðast við 1 kjúklingabringu
- 1 stór kjúklingabringa
- 1 msk grænt pestó
- 1 msk sýrður rjómi
- 1 msk rifinn mozzarella ostur
Hrærið saman pestó, sýrðum rjóma og mozzarella osti. Setjið kjúklingabringuna í plastpoka og berjið hana út, eins þunna og þú nærð henni. Takið kjúklingabringuna úr plastpokanum og smyrjið pestóhrærunni yfir hana en látið hana þó ekki fara alveg að köntunum. Rúllið kjúklingabringunni upp og festið hana saman með tannstönglum.
- 1 egg
- 1½ msk fínrifinn parmesan
- 1½ msk hveiti (eða möndlumjöl ef þið eigið það)
- svartur pipar
Hrærið eggið og setjið í grunna skál. Blandið saman parmesan og hveiti í annari skál og kryddið til með svörtum pipar. Dýfið kjúklingabringunni í eggjahræruna og síðan í parmesanhveitiblönduna. Passið að kjúklingurinn sé vel hjúpaður. Setjið kjúklinginn í smurt eldfast mót og bakið við 190° í 30-35 mínútur.