Ég veit að það mun eflaust falla í grýttan jarðveg að lofsama veðrið undanfarna daga en ég verð að viðurkenna að mér þykir þetta pínu notalegt. Sú staðreynd að ég er ekki enn byrjuð í sumarfríi hefur eflaust eitthvað með þessa jákvæðni mína gagnvart rigningu og roki að gera, en það er bara svo gott að koma heim eftir vinnu og geta lagst upp í sófa á kvöldin með góðri samvisku. Það get ég aldrei gert þegar veðrið er gott.
Ég eldaði kjötsúpu í gærkvöldi sem mér þykir vera mikill vetrarmatur og í kvöld var ég með bjúgu og uppstúf í matinn við mikinn fögnuð krakkanna. Ég man ekki hvenær ég eldaði bjúgu síðast en það var klárlega ekki um hásumar.
Það er líka upplagt í þessu veðri að baka köku til að eiga með kaffinu. Þessi dúnmjúka súkkulaði- og bananakaka með léttu súkkulaðikremi er gjörsamlega ómótstæðileg! Sem betur fer þá vill hún klárast fljótt því ég get ekki vitað af henni í friði inn í eldhúsi. Súpergóð!!
Banana- og súkkulaðikaka – uppskrift úr Hemmets Journal
- 150 g smjör
- 1 ½ dl rjómi
- 1 þroskaður banani
- 3 egg
- 3 dl sykur
- 1 msk vanillusykur
- 1 dl kakó
- 2 tsk lyftiduft
- 4 dl hveiti
Krem
- 100 g suðusúkkulaði
- 150 g mjúkt smjör
- ½ dl kakó
- 1 msk vanillusykur
- 2 dl flórsykur
Skraut
- 1-2 dl kókosmjöl
Hitið ofninní 175°.
Bræðið smjörið og blandið því saman við rjómann. Stappið bananann og hrærið honum saman við rjómablönduna. Þeytið egg, sykur og vanillusykur þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman við eggjablönduna og blandið að lokum rjómablöndunni varlega saman við. Setjið deigið í skúffukökuform (um 25 x 35 cm) og bakið í neðri hluta ofnsins í 20-25 mínútur. Látið kökuna kólna áður en kremið er sett á.
Krem: Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Látið kólna aðeins. Hrærið súkkulaðinu saman við smjörið. Bætið kakó, vanillusykri og flórsykri saman við og hrærið saman þar til kremið er orðið mjúkt og létt í sér. Setjið yfir kökuna og stráið kókosmjöli yfir.