Dásamlegt sírópsbrauð

SírópsbrauðÞessar síðustu sumarvikur hafa flogið áfram og á morgun hefjast skólarnir og tómstundir á nýjan leik. Haustið hefur alltaf verið í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Þegar loftið er brakandi ferskt á morgnanna og hversdagsrútínan fer aftur í gang. Við ætlum að kveðja sumarið með því að fara á Justin Timberlake í kvöld og stemmningin er í toppi fyrir því.

Sírópsbrauð

Við byrjuðum daginn á löngum og góðum morgunverði. Ég bakaði sírópsbrauð í gærkvöldi og það var því fljótlegt að hafa morgunverðinn til í morgun. Mér þykir eitt það notalegasta við helgarnar vera að geta setið lengi yfir morgunverðinum. Ég næ því aldrei á virkum dögum og oftar en ekki gríp ég þá morgunverðinn með mér í bílinn.

Sírópsbrauð

Brauðið sem við gæddum okkur á í morgun er dásamlega ljúffengt, mjúkt og geymist vel. Hér áður fyrr notaði ég alltaf venjulegar rúsínur í það en eftir að ég datt niður á þessar hálfþurrkuðu rúsínur þykir mér ekkert varið í hinar. Þegar ávextirnir eru hálfþurrkaðir þá bæði helst sætleikinn í þeim og þeir haldast mjúkir og góðir. Þvílíkur munur! Ég er spennt að prófa fleiri ávexti úr þessari línu.

Sírópsbrauð

Það er bæði lítil fyrirhöfn og einfalt að baka gerlaus brauð. Það þarf bara að hræra öllu saman og setja inn í ofn. Mér þykir best að baka þetta brauð kvöldinu áður svo allt sé klárt þegar ég vakna. Ég vef því heitu inn í hreint viskastykki og set síðan glæran plastpoka utan um það. Þannig geymist það vel.

SírópsbrauðSírópsbrauð 

  • 3 ½ dl hveiti
  • 3 dl heilhveiti
  • 1 tsk salt
  • ½ sólblómafræ
  • 1 dl rúsínur (ég mæli með hálf þurrkuðu rúsínunum frá St. Dalfour)
  • ½ dl cashew hnetur
  • 5 dl súrmjólk
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 dl síróp

Hitið ofninn í 175°.  Blandið hveiti, heilhveiti, salti, sólblómafræjum, rúsínum og hnetum saman í skál og leggið til hliðar. Blandið súrmjólk, sírópi og matarsóda saman í annari skál og hrærið síðan varlega saman við þurrefnin.

Smyrjið 1,5 lítra brauðform eða klæðið það með bökunarpappír. Setjið deigið í formið og stráið smá hveiti yfir. Bakið brauðið í neðri hluta ofnsins í um 90 mínútur. Setjið álpappír yfir brauðið ef það fer að dökkna of mikið. Látið brauðið hvíla innvafið í viskastykki í 5 klukkutíma áður en það er borðið fram.