Banana- og súkkulaðikaka

ÍsgerðinVið höfum verið dugleg að heimsækja ísbúðirnar undanfarnar vikur. Þegar það er bjart langt fram eftir kvöldi þykir okkur svo gaman að renna í ísbíltúr eftir kvöldmat. Í vikunni skelltum við okkur í uppáhaldsísbúðina okkar, Ísgerðina, og fengum svo góðar móttökur að ég má til með að hrósa þeim fyrir góða þjónustu.

Ísgerðin

Ísgerðin er með fjölbreytt úrval af jógúrtís sem er léttur í maga og okkur þykir sérlega góður. Bragðtegundirnar eru breytilegar og þegar ég spurði fékk ég að vita að þeir eru með um 40 bragðtegundir sem þeir skiptast á að nota. Síðan er hægt að setja nammi, íssósur og ferska ávexti út á ísinn. Æðislega gott!  Afgreiðslumaðurinn var svo almennilegur að bjóða okkur innfyrir að skoða og þar var allt til fyrirmyndar, svo snyrtilegt og hreint, eins og það á að vera. Ég má því til með að mæla með heimsókn í Ísgerðina ef þið ætlið í ísbíltúr um helgina.

Ísgerðin

Önnur góð hugmynd fyrir helgina er að baka þessa banana- og súkkulaðiköku. Hún er stórgóð og fer ljómandi vel með helgarkaffinu.

Banana- og súkkulaðikaka

Banana- og súkkulaðikaka (uppskrift frá Mästerkocken)

 • 125 g smjör
 • 3 egg
 • 2 dl sykur
 • 2 dl súrmjólk
 • 4 dl hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • 2 bananar
 • 2 msk kakó

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið smjörið í blönduna og bætið súrmjólk saman við. Blandið hveiti, lyftidufti og matarsóda saman og hrærið saman við deigið.

Skiptið deiginu í tvær skálar. Stappið bananana og blandið þeim í helminginn af deiginu og setjið kakó í hinn helminginn.

Smyrjið formkökuform.  Hellið bananadeiginu og kakódeiginu á víxl í formið. Gerið að lokum mynstur í deigið  með gaffli. Bakið í neðri hluta ofnsins í um 1 klst.

Banana- og súkkulaðikaka

Starbucks sítrónukaka

Starbucks sítrónukaka

Ég veit að ég ætti að vera snjöll og byrja vikuna á færslu með einhverri æðislegri hollustu en ég bara ræð ekki við mig. Ég get ekki hætt að hugsa um þessa fersku, mjúku sítrónuköku sem ég bakaði um daginn. Hún var himnesk og mig er búið að langa í hana á hverjum degi síðan. Ég set samt hendina á hjartað og lofa að hún var ekki í kvöldmat hjá okkur í kvöld. Það var fiskur og þið viljið ekki fá uppskriftina að honum. Ég lofa. Það sem þið eigið frekar eftir að vilja er uppskriftina að þessari dásamlegu köku því hún gerir lífið aðeins betra.

Starbucks sítrónukaka

Þegar ég er erlendis þá má ég ekki sjá Starbucks stað án þess að vilja rjúka þangað inn. Ég lít þó ekki við kaffinu heldur er það sítrónuformkakan þeirra sem hrópar á mig. Ég man eftir því eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði hana fyrst. Mér fannst hún svo stórkostlega góð. Síðan þá hef ég verið veik fyrir henni og næ mér í sneið við hvert tækifæri sem gefst.

Starbucks sítrónukaka

Ég rakst á uppskriftina að kökunni á netráfi mínu eitt kvöldið og hjartað tók auka slag þegar ég sá hana. Ég veit ekki af hverju ég hef ekki leitað að uppskriftinni áður en þarna bara var hún, Starbucks sítrónuformkakan.

Starbucks sítrónukaka

Ég þori ekki að lofa að þetta sé sama kakan en þessi var svo góð að mér er í raun alveg sama. Þessi heimabakaða Starbuckskaka uppfyllir alla mínar sítrónukökulanganir og ríflega það.

Starbucks sítrónukaka

 • 1 ½ bolli hveiti
 •  ½ tsk lyftiduft
 •  ½ tsk matarsódi
 •  ½ tsk salt
 • 3 egg
 • 1 bolli sykur
 • 2 msk mjúkt smjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk sítrónudropar
 • 1/3 bolli sítrónusafi
 •  ½ bolli bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
 • hýði af 1 sítrónu

Glassúr

 • 1 bolli flórsykur
 • 2 msk nýmjólk
 •  ½ tsk sítrónudropar

Kakan:

Hitið ofninn í 175° og smyrjið formkökuform vel.

Blandið hveiti, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál.

Hrærið saman í annari skál eggjum, sykri, smjöri, vanilludropum, sítrónudropum og sítrónusafa þar til hefur blandast vel. Hrærið blöndunni saman við þurrefnin og hrærið þar til deigið verður mjúkt. Bætið olíu og sítrónuhýði saman við og blandið vel. Setjið deigið í smurt formkökuform og bakið í 45 mínútur eða þar til prjóni sem er stungið í kökuna kemur hreinn upp.

Glassúr:

Hrærið öllu saman og hellið yfir kökuna.