Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur

Ég hef áður sagt frá vöffluæðinu sem virðist ganga árstíðarbundið yfir heimilið og enn og aftur ætla ég að bjóða upp á nýja vöffluuppskrift. Ég held í alvöru að þessi sé best, eða í það minnsta deili toppsætinu með hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflunum, þó að hráefnalistinn sé ekki með hefðbundnu móti. Mig rekur ekki minni til að hafa séð kornsterkju og grænmetisolíu í íslenskum vöffluuppskriftum en hér bregður báðum þessum hráefnum fyrir og gera vöfflunni góð skil. Stökk að utan, mjúk að innan. Þannig vil ég hafa vöfflurnar og þannig eru þessar. Dásamlegar með sultu og rjóma og fara stórvel með sunnudagskaffinu.

Syndsamlega góðar vöfflur

Syndsamlega góðar vöfflur (uppskrift frá Food 52)

  • 1½ bolli hveiti
  • ½ bolli kornsterkja (maizenamjöl)
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar nýmjólk eða súrmjólk
  • 2/3 bolli grænmetisolía (vegetable oil) eða brætt smjör
  • 2 egg
  • 3 tsk sykur
  • 1 ½ tsk vanilludropar

Setjið hveiti, kornsterkju, lyftiduft, matarsóda og salt í skál og blandið vel saman. Bætið mjólk, grænmetisolíu, eggjum, sykur og vanillu saman við og blandið vel. Látið deigið standa í 30 mínútur.

Bakið vöfflurnar á smurðu vöfflujárni. Berið fram með sultu og rjóma, smjöri og hlynsýrópi eða hverju því sem hugurinn girnist.

Syndsamlega góðar vöfflur