Í lok janúar pantaði ég mér áskrift að Bon Appétit blaðinu. Síðan þá hef ég brunað spennt heim úr vinnunni í von um að blaðið biði mín og það var ekki fyrr en í síðustu viku sem það loksins datt inn um lúguna hjá okkur. Ég var eiginlega búin að gefa upp vonina.
Blaðið reyndist biðarinnar virði og ég hef nú þegar prófað tvær uppskriftir sem hafa báðar slegið í gegn hjá okkur. Þessar brownies með saltri karamellusósu er önnur uppskriftanna og hamingjan hjálpi mér hvað þær voru góðar. Ég bar þær fram í matarboði sem eftirrétt á skírdag og þær einfaldlega fullkomnuðu máltíðina. Klárlega bestu brownies sem ég hef á ævi minni smakkað og ég get ekki beðið eftir tækifæri til að bjóða upp á þær aftur.
Það má gera brownie-kökuna deginum áður. Setjið þá plast yfir hana og geymið við stofuhita. Karamellusósuna má gera með viku fyrirvara. Setjið hana í lokaðar umbúðir og kælið. Hitið hana upp áður en hún er borin fram.
Brownies með saltri karamellusósu (uppskrift úr Bon Appétit)
- 1 msk kakó
- ½ bolli (115 g) ósaltað smjör
- 85 g ósætt súkkulaði (með sem hæsta kakóinnihaldi, helst yfir 80%), hakkað
- 55 g suðusúkkulaði, hakkað
- 2/3 bolli hveiti
- 1 msk instant espresso kaffiduft
- 1/4 tsk gróft salt
- 2 stór egg
- 1 bolli sykur
- 1 tsk vanilludropar
- 1/3 bolli grófhakkað suðusúkkulaði
Hitið ofninn í 175°. Smyrjið kökuform sem er 20×20 cm og stráið kakó yfir það. Hellið því kakói frá sem ekki festist.
Bræðið smjör, ósætt súkkulaði og suðusúkkulaði saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hrærið blöndunni saman í slétt krem. Leggið til hliðar.
Hrærið hveiti, espressó dufti, grófu salti og 1 msk kakó saman í skál. Leggið til hliðar.
Hrærið egg og sykur saman í hrærivél (eða með handþeytara) á hröðustu stillingu þar til blandan verður ljós og þykk, um 2 mínútur. Hrærið vanilludropunum saman við. Hrærið súkkulaðiblöndunni varlega saman við og þar á eftir þurrefnunum. Passið að ofhræra ekki deigið heldur einungis hræra það saman þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið 1/3 bolla af grófhökkuðu suðusúkkulaði saman við og setjið deigið í kökuformið.
Bakið þar til prjóni stungið í deigið kemur með mjúkri mylsnu upp, eða í 20-25 mínútur. Takið kökuna úr ofninum og látið kólna í forminu.
Sölt karamellusósa
- 1/2 bolli sykur
- 2 msk vatn
- 2 msk ósaltað smjör, skorið í litla bita
- 2 msk rjómi
- sjávarsalt
Setjið sykur og vatn í lítinn pott og hitið á miðlungsháum hita (ég var með stillingu 5 af 9) þar til byrjar að sjóða. Hrærið í pottinum þar til sykurinn leysist upp. Þegar byrjar að sjóða í pottinum þá er hitinn hækkaður örlítið (ég hækkaði hann í stillingu 6) og hætt að hræra í pottinum. Veltið pottinum annað slagið og burstið niður með hliðunum með blautum pensli. Látið sjóða þar til sykurinn er orðinn fallega gylltur á litinn, það tekur 5-8 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið smjöri og rjóma saman við (blandan mun bullsjóða við þetta). Hrærið í pottinum þar til blandan er slétt. Látið karamellusósuna kólna aðeins í pottinum.
Skerið brownies-kökuna í bita, hellið volgri karamellusósunni yfir og stráið sjávarsalti yfir karamellusósuna.