Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguVeðurblíðan virðist leika við landsbyggðina á meðan við gleðjumst yfir einum og einum þurrum degi hér í höfuðborginni. Ég eldaði kjötsúpu og fór í Ikea til að fylla á kertabyrgðirnar í síðustu viku. Ég meina, hversu lítið sumarlegt er það? Nú fer þetta vonandi að lagast, spáin lítur ágætlega út fyrir helgina og fínasta grillveður í kortunum!

Kjúklingasalat með BBQ- dressinguÞetta kjúklingasalat er einn af mínum uppáhalds grillréttum þetta sumarið. Helst grilla ég kjúklinginn en það má vel steikja hann á pönnu ef því er að skipta. Það skemmir ekki fyrir hvað salatið er fallegt á borði og gaman að bera það fram, en best af öllu er þó hvað það er gott. Svo einfalt, ferskt og dásamlega gott!

Kannski eitthvað til að prófa um helgina?

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

Kjúklingasalat með BBQ- dressingu

 • 500 g kjúklingalundir frá Rose Poultry
 • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
 • 70 g furuhnetur
 • 1 msk tamarisósa
 • spínat
 • 1 rauð paprika, skorin í strimla
 • 1 gul paprika, skorin í strimla
 • ½ rauðlaukur, skorin í fína strimla
 • kokteiltómatar, skornir í tvennt
 • avokadó, skorið í sneiðar
 • jarðaber, skorin í tvennt
 • gráðostur (má sleppa)

BBQ-dressing:

 • 1 dl Hunt´s Hickory & Brown Sugar BBQ Sauce
 • 1 dl matreiðslurjómi

Kjúklingalundum og BBQ-sósu er blandað saman í skál og kjúklingurinn látinn marinerast í 30 mínútur. Að því loknu er hann grillaður þar til eldaður í gegn.

Furuhnetur eru þurrristaðar á pönnu við miðlungsháan hita þar til þær eru komnar með gylltan lit. Þá er tamarisósu hellt yfir og steikt áfram í 30 sekúndur (eftir að tamarisósan er komin á pönnuna er hrært stöðugt í hnetunum). Hneturnar eru þá teknar af pönnunni og lagðar til hliðar.

BBQ-dressing: BBQ-sósu og matreiðslurjóma er blandað saman í potti og hitað að suðu. Látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur.

Samsetning: Spínat, paprikur, rauðlaukur, kokteiltómatar og avokadó er blandað saman og sett í stóra skál eða á fat. Grillaðar kjúklingalundir eru lagðar yfir, þar næst er gráðostur mulinn yfir og að lokum er ristuðum furuhnetum stráð yfir salatið. Salatið er skreytt með jarðaberjum og borið fram með BBQ-dressingunni.

Japanskt kjúklingasalat

Japanskt kjúklingasalat

Bloggið er í blómstrandi nostalgíukasti þessa dagana. Ég hef verið að garfa í gömlum uppskriftabókum og þá rifjast oft upp góðar uppskriftir sem hafa legið í dvala. Þetta kjúklingasalat var allt of oft í matinn hjá okkur á tímabili og ég held að hvíldin hafi verið kærkomin hjá flestum. Öllu má nú ofgera.

Japanskt kjúklingasalat

Í gær dró ég uppskriftina aftur fram og eldaði salatið góða. Gott ef okkur þótti það ekki bara betra núna en síðast. Hér áður fyrr bakaði ég oftast nanbrauð og bar fram með salatinu en í gær fékk ofnbakað snittubrauð með smjöri, hvítlaukssalti og parmesanosti að duga.

Japanskt kjúklingasalat

Einfalt, fljótlegt og ótrúlega gott!

Japanskt kjúklingasalat

Japanskt kjúklingasalat

 • 1/2 bolli olía
 • 1/4 bolli balsamic edik
 • 2 msk sykur
 • 2 msk sojasósa

Setjið allt í pott og sjóðið saman í u.þ.b. 1 mínútu. Takið af hitanum og hrærið annað slagið í á meðan blandan kólnar (til að sósan skilji sig ekki).

 • 1 poki núðlur (instant súpunúðlur) – ekki kryddið
 • 3-4 msk möndluflögur
 • 1-2 msk sesamfræ

Brjótið núðlurnar smátt niður. Ristið á þurri pönnu, byrjið á núðlunum (því þær taka lengri tíma) og bætið svo möndlum og semsamfræjum á pönna. Ath. að núðlurnar eiga að vera stökkar. Leggið til hliðar.

 • kjúklingabringur 
 • sweet hot chillisósa

Skerið kjúklingabringurnar í strimla og snöggsteikið í olíu. Hellið sweet chillisósu yfir og látið sjóða við vægan hita um stund.

 • salatpoki eða iceberg salat
 • kirsuberjatómatar
 • mangó
 • rauðlaukur

Skerið niður og setjið í botninn á fati. Stráið ristuðu núðlublöndunni yfir, hellið svo balsamicsósunni yfir og að lokum er kjúklingaræmunum dreift yfir.