Það virðist fylgja sumrinu að ískaup aukast á heimilinu og veðrið virðist ekki hafa nein áhrif á það. Það er bara eitthvað svo ferskt og svalandi við ísskál eftir matinn eða yfir sjónvarpinu. Ég hef áður gefið uppskrift af súkkulaðisósu sem er æðisleg með ís (þú finnur hana hér) en þessi er einfaldari, með færri hráefnum og svo sannarlega ekki síðri.
Þetta er ekki flókið enda er það einfalda oft það besta. Ferskur ananas er skorinn í sneiðar og grillaður. Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör er hitað í potti með nokkrum matskeiðum af rjóma eða mjólk (ég nota bara það sem ég á að hverju sinni) og síðan er veislan fullkomuð með góðum ís. Það verður enginn svikinn af þessu!
Grillaður ananas með vanilluís og dásamlegri súkkulaðisósu
- ferskur ananas
- góður ís
- 1/2 krukka Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör
- nokkrar matskeiðar rjómi eða mjólk
Skerið ananasinn í sneiðar og grillið á báðum hliðum. Hitið Nusco heslihnetu- og súkkulaðismjör í potti með nokkrum matskeiðum af rjóma eða mjólk, þar til réttri þykkt er náð. Berið grillaðan ananasinn fram með góðum ís og heitri súkkulaðisósunni.