Mjúk kanilsnúðakaka

Mér þykja sænskir kanilsnúðar æðislega góðir og frábært að eiga þá í frystinum til að geta hitað upp með kaffinu. Vandamálið við þá er að þeir staldra yfirleitt stutt við í frystinum og það virðist sama hvað ég vanda mig við að fela þá, þeir hverfa alltaf.

Sem betur fer þá luma ég á uppskrift að þessari dásamlegu kanilsnúðaköku. Það tekur enga stund að gera hana og hún er jafnvel betri með kaffinu en snúðarnir, lungamjúk og ljúffeng.

Í morgun hringdi mamma og sagðist ætla að fá sér göngutúr til okkar. Ég ákvað að baka kanilsnúðakökuna og hafa með kaffinu þegar hún kæmi.  Það kom sér vel því þegar ég var nýbúin að taka kökuna úr ofninum fylltist húsið af gestum. Kakan vakti mikla lukku og voru allir á einu málu um að hún væri stórgóð. Ekki þótti verra að hún brosti til okkar, ótrúlegt en satt.

Mjúk kanilsnúðakaka

 • 175 gr smjör
 • 2 ½  dl sykur
 • 2 egg
 • 3 dl sýrður rjómi eða súrmjólk (ég nota bara það sem ég á, í morgun blandaði ég saman sýrðum rjóma og létt ab-mjólk)
 • 4 ½  dl hveiti
 • 2 tsk vanillusykur
 • 1 msk lyftiduft
 • smá salt

Fylling

 • 1 dl sykur
 • 3 msk kanil

Yfir kökuna

 • 2 msk smjör

Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör og sykur mjúkt og ljóst. Bætið eggjunum saman við, einu í einu, og þar á eftir sýrða rjómanum. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið vel saman.

Blandið saman í sér skál sykri og kanil í fyllinguna.

Smyrjið formkökuform. Látið helminginn af deiginu í formið, stráið helmingnum af fyllingunni yfir, látið seinni helminginn af deiginu yfir og endið á að strá restinni af fyllingunni yfir kökuna. Leggið smjörklípur yfir kökuna og bakið í 45-60 mínútur (eftir stærð á formi).