Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Ég hef oft hugsað um það hvað ég er heppin með lesendur hér á síðunni. Ég fæ svo ótrúlega fallega tölvupósta frá lesendum sem hlýja mér meira en ég mun nokkurn tímann getað lýst og í dag fékk ég svo fallega gjöf að ég fór næstum því að gráta. Ég get með sönnu sagt að væri ekki eins að blogga án ykkar.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Gjöfin sem ég fékk var þessi dásamlega bók og inn í hana var búið að skrifa fallega kveðju til mín. Bókina ætla ég að geyma á náttborðinu mínu, stúdera makkarónubakstur fyrir svefninn og dreyma þær á nóttinni. Þúsund milljón þakkir Kristín, þú veist ekki hvað þú gladdir mig mikið.

Færslurnar eru að koma seint inn hjá mér þessa dagana og það er allt Ögga að kenna. Hann er með tölvuna OG myndavélina með sér á júróvisjónæfingum eftir vinnu og ég get því ekki bloggað á meðan. Á móti kemur að tölvan er full af myndum og myndböndum frá æfingum sem ég er spennt að hlusta á þegar Öggi kemur heim. Látið vita ef ykkur langar að sjá og ég skal athuga hvort ég geti sett eitthvað hingað inn.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Ég eldaði ljúffengan kjöthleif sem var kannski ekki mikið fyrir augað en bætti það svo sannarlega upp með bragðinu. Ég fyllti hann með fetaosti og pestói með sólþurrkuðum tómötum sem kom æðislega vel út. Fjölskylduvænt og stórgott.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

 • 600 g bland- eða nautahakk
 • 0,5 dl brauðrasp
 • 1 dl vatn
 • 1,5-2 tsk salt
 • svartur pipar
 • 1 tsk timjan
 • 1/2 tsk rósmarín
 • 1 laukur
 • 1 egg
 • fetaostur
 • pestó með sólþurrkuðum tómötum

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Hitið ofninn í 175°. Skerið laukinn í grófa bita. Blandið lauk, vatni, brauðraspi, eggi, salti, pipar, timjan og rósmarín saman og maukið með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Blandið maukinu og hakkinu vel saman. Smyrjið eldfast mót, formið hleif úr hakkblöndunni og leggið hann í mótið. Gerið skurð í kjöthleifinn. Myljið fetaost í skurðinn og setjið pestó yfir. Lokið skurðinum vel og setjið í ofninn í 40 mínútur.

Pestó- og fetafylltur kjöthleifur

Kjöthleifur með rjómasósu

Það fer lítið fyrir myndarskapnum þetta föstudagskvöldið en mikið höfum við það samt gott. Krakkarnir fengu okkur til að kaupa pizzur og við ákváðum að fara alla leið í notalegheitum og fylltum síðan skálar af sætindum og leigðum okkur mynd.

Í gær eldaði ég hins vegar góðan hversdagsrétt, kjöthleif með kartöflum og soðnu haustgrænmeti. Mér finnst það vera notalegur matur sem passar vel á haustkvöldum.

Kjöthleifur með rjómasósu

 • 1 kg nautahakk eða blanda af nautahakki og svínahakki
 • 1,5 msk kartöflumjöl
 • 0,75 dl brauðrasp
 • 1,5 dl mjólk
 • 1 msk tómatsósa
 • salt
 • pipar
 • 25 gr smjör
 • 2 laukar
 • 2,5 msk kalvfond
 • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 175°. Skerið laukinn í bita og steikið á pönnu í smjörinu. Leyfið lauknum að malla við vægan hita í smjörinu þar til hann er orðinn mjúkur. Hellið kalvfond og vatni yfir og sjóðið saman í stutta stund. Takið af pönnunni og mixið með töfrasprota þannig að laukbitarnir hverfi.

Blandið brauðrasp og kartöflumjöli saman og hellið mjólkinni yfir. Leyfið blöndunni að standa um stund og þykkna. Blandið saman við laukmaukið og bætið síðan hakkinu og tómatsósunni við, ásamt salti og pipar. Mér finnst gott að nota hrærivélina en það er léttilega hægt að gera þetta í höndunum.

Smyrjið ofnskúffu eða eldfast mót og látið hakkblönduna á. Mótið hleif  úr hakkblöndunni og bakið í miðjum ofni í klukkutíma.

Mér þykir gott að nota soðið sem kemur af kjöthleifnum í sósu. Þegar kjöthleifurinn er tilbúinn tek ég hann úr forminu og sigta soðið úr því í pott. Ég bæti síðan ca 2 dl af vatni, 1-2 dl af rjóma, sojasósu, rifsberjahlaupi og grænmetisteningi í pottinn og læt sjóða um stund. Ég smakka síðan sósuna til með hvítum pipar og salti. Stundum bæti ég meiri vökva saman við eða jafnvel smá rjómaosti. Sósan er að lokum þykkt með maizena-mjöli.