Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Ég hef náð að gera ýmislegt yfir helgina. Ég kláraði loksins húfu sem ég hef verið að prjóna á Gunnar og nú vill Jakob eins. Ég ætla því að skjótast á morgun eftir meira garni og hefjast handa á ný.

Ég keypti nóvemberkaktus og koralkaktus og setti í fallegu blómapottana frá Greengate. Ég krosslegg fingur og vona að þeir lifi.

Ég keypti erikur og setti fyrir framan hús. Ég vildi hvítar eins og venjulega en Malín náði að tala mig inn á bleikar. Henni þóttu þær haustlegri.

Ég bakaði brauð í morgun á meðan fjölskyldan svaf. Það var dásamlegt að setjast niður saman og borða nýbakað brauð í morgunmat. Uppskriftin var ný og ég lofa að setja hana inn á morgun.

Ég bakaði stóra uppskrift af Silvíuköku. Þessi kaka hverfur alltaf um leið og hún kemur úr ofninum svo það hentar vel að stækka uppskriftina og baka hana í ofnskúffunni.

Að lokum eldaði ég frábæran kjúklingarétt sem ég ætla að enda færsluna á. Krakkarnir elskuðu hann og gáfu honum 9,9 í einkunn. Við Öggi tókum undir með þeim og borðuðum þar til ekkert var eftir.

Marineraður kjúklingur í rjómasósu

Marinering:

  • 6 kjúklingabringur
  • 0,5 dl sojasósa
  • 2 msk hvítvínsedik
  • fullt af klipptri steinselju
  • 1 hakkað hvítlauksrif

Blandið saman öllum hráefnunum í marineringuna og leggið kjúklingabringurnar í (ég skar bringurnar gróflega niður). Látið liggja í marineringunni yfir nóttu eða amk 6 klst. Látið allt í eldfast mót og bakið við 175°í 30-50 mínútur (eftir stærð á kjúklingabringunum).

Hellið vökvanum/marineringunni frá í skál í gegnum sigti.

Sósa:

  • 2 dl sýrður rjómi
  • 3 dl rjómi
  • 0,5 dl marinering eða meira (smakkið til, mér þykir best að nota alla marineringuna)
  • pipar og salt
  • maizena

Sjóðið saman öll hráefnin í sósunni. Smakkið til með marineringu, salti og pipar. Þykkið sósuna með maizena. Setjið annað hvort kjúklinginn í pottinn og látið sjóða saman um stund eða látið kjúklinginn ásamt sósunni í eldfast mót og hitið í ofni.

Berið fram með hrísgrjónum og góðu salati.